147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:33]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Sennilega mætti velja daginn í dag eða einhvern þeirra næstu sem formlegan hrunlokadag, svona eins og Eyjamenn hafa sinn goslokadag. Allar hagstærðir sýna nefnilega að við erum nú búin að yfirvinna þann þjóðhagslega skaða sem hlaust af hruninu og gott betur. Nú hefur líka fyrra Íslandsmet í kaupmætti launa verið slegið. Hann hefur aldrei verið jafn mikill og nú, ekki einu sinni þegar hin mikla efnahagslega graftarbóla náði hámarki sínu 2007. Til viðbótar er munurinn líka sá að nú liggur raunveruleg verðmætasköpun á bak við þennan kaupmátt en ekki bara froða eins og þá.

Ég geri mér grein fyrir því að við þessar góðærisaðstæður kann að vera nokkuð snúið að vera þingmaður í stjórnarandstöðu, reyndar líka í stjórn ef út í það er farið. Fyrstu viðbrögð stjórnarandstæðinga við fjárlagafrumvarpinu í gær voru að kalla þetta hægri stefnu, aðrir kölluðu þetta sveltistefnu, og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon brást náttúrlega ekki væntingum hérna áðan og kallaði þetta hægri sveltistefnu. [Hlátur í þingsal.]

Veruleikinn er auðvitað allur annar. Ríkisútgjöld halda nefnilega áfram að aukast, raunaukning milli áranna 2017 og 2018 er 30 milljarðar kr. fyrir utan laun og verðlag, þ.e. rúmlega 4% að raungildi. Þeir málaflokkar sem taka bróðurpartinn af þessari hækkun eru heilbrigðis- og velferðarmál. Sem dæmi má taka að útgjöld vegna málefna aldraðra hækka um tæplega 4 milljarða að raungildi, 5,5%. Samt heimta stjórnarandstæðingar hærra og hraðar, meiri útgjöld og hærri skatta.

Af þeim pólitíska sjónarhóli sem ég stend á mætti hins miklu fremur gagnrýna ríkisstjórnina frá hinni hliðinni. Á útþenslu ríkisins aldrei að linna? Er aldrei hægt að lækka skatta, bara hækka?

Gerir fólk sér grein fyrir því að á tíu ára tímabili, 2007–2016, hafa hrein rekstrarútgjöld ríkisins hækkað að raungildi um 142 milljarða á ári, um 75%? Ég sting upp á því við hæstv. fjármálaráðherra að hann láti fljótlega gera lista yfir það í hvað þessir peningar fóru. Það gæti orðið fróðleg lesning.

Ég held með öðrum orðum að nú sé kominn tími til að staldra aðeins við og spyrja: Förum við nógu vel með allt það fé sem við heimtum af almenningi? Það virðist vera orðið sjálfstætt og alltumlykjandi markmið hjá mörgum ríkisstofnunum og jafnvel ríkissjóði sjálfum að raka til sín sem mestu fé, en það sé minni eftirfylgni með því hvernig það er notað. Meira er hugsað um að sækja fjármuni til fólks en hvað fólkið fær síðan fyrir þessa fjármuni.

Ég staðhæfði áðan að við gætum fagnað hrunlokum í efnahagslegu tilliti. Við höfum hins vegar ekki enn endurheimt hitt sem tapaðist í hruninu, traustið eða límið í samfélaginu. Þar höfum við verk að vinna hér í þessum sal. Byrjum á sjálfum okkur, eins og presturinn stakk upp á við þingsetninguna í gær. Hættum t.d. að væna hvert annað um að halda hlífiskildi yfir barnaníðingum eða að vilja ekki sýna börnum í hrakningum mannúð og samúð. Heldur einhver hér inni raunverulega að ég hafi meiri samúð með barnaníðingum en annað fólk af því að ég er Sjálfstæðismaður eða minni samúð með börnum sem eiga bágt af sömu ástæðu? — Góðar stundir.