147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2018 sem er fyrsta mál 147. löggjafarþings eins og stjórnarskrá og þingskapalög kveða á um. Samkvæmt lögum um opinber fjármál skal frumvarpið lagt fram á grundvelli þingsályktunar um fjármálaáætlun og skal það vera í samræmi við markmið hennar.

Með frumvarpinu er lagt fram sérstakt fylgirit en í því er meðal annars sýnd nánari skipting á tekjum ríkissjóðs auk skiptingar fjárheimilda, málaflokka í fjárveitingar til ríkisaðila og annarra verkefna sem tilheyra A-hluta ríkissjóðs. Jafnframt er birt yfirlit sem sýnir samanburð á útgjöldum milli ríkisreiknings fyrir næstliðið ár, fjárveitinga samkvæmt gildandi fjárlögum og fjárveitinga á komandi fjárlagaári, auk áætlunar um fjárveitingar næstu tveggja ára þar á eftir. Ég vek athygli á því að fjárveitingar í fylgiritinu hafa ekki lögformlegt gildi og að fjárveitingar eru allar á verðlagi ársins 2018.

Með samanburðinum og áætlunum til lengri tíma en eins árs verður auðveldara að fylgjast með þróun fjárhags ríkisaðila og verkefna með hliðsjón af stefnumótun þeirra. Upplýsingar í fylgiritinu munu þannig auka gagnsæi, ásamt því að vitneskja um fjárveitingar berist fyrr en áður til forstöðumanna ríkisstofnana og annarra rekstraraðila.

Frú forseti. Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt ný lög um opinber fjármál sem stuðla að markvissari stefnumótun í efnahagsmálum og fjármálum hins opinbera til lengri tíma litið. Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára var lögð fram í janúar síðastliðnum í samræmi við þessi lög. Stefnan gerir ráð fyrir meiri afgangi af rekstri hins opinbera yfir allt áætlunartímabilið en fyrri stefna til að vega á móti ójafnvægi og þenslu í hagkerfinu. Áhersla er lögð á niðurgreiðslu skulda ríkisins í fjármálastefnunni og þar með lækkun vaxtagreiðslna í framtíðinni.

Ríkisstjórnin lagði enn fremur fram sína fyrstu fjármálaáætlun í mars síðastliðnum. Fjármálaáætlunin, sem Alþingi samþykkti síðla vors, felur í sér ítarlegri útfærslu á fjármálastefnu til fimm ára og markar um leið þá stefnu sem birtist í þessu frumvarpi til fjárlaga. Fjögur hagstjórnarmarkmið voru sett fram í áætluninni; aðhald í ríkisrekstri, einkum á fyrri hluta áætlunartímabilsins; stöðugleiki og sátt á vinnumarkaði; stöðugleiki í gengismálum, og í fjórða lagi efling opinberrar þjónustu og innviða á grundvelli öflugs atvinnulífs og traustrar fjárhagsstöðu hins opinbera.

Nýtt vinnulag er að festa sig í sessi þó að það sé vissulega enn að slípast til. Margir kostir felast í því, meðal annars styður það við festu og fyrirsjáanleika í stjórn opinberra fjármála, eflir efnahagslega umfjöllun á Alþingi og í samfélaginu og gerir umræðu um opinber fjármál markvissari.

Grunnstoðir þessa nýja verklags eru fjármálastefna og fjármálaáætlun. Þær miða að því að marka fyrst heildarramma efnahagsstefnunnar í fjármálastefnu og ákveða svo hvernig ramminn er útfærður niður á einstök málefnasvið í fjármálaáætlun. Í fjárlögum er ramminn síðan útfærður nánar niður á einstaka málaflokka. Í fylgiritinu, sem lagt er fram samhliða fjárlagafrumvarpinu, kemur síðan fram skipting fjárheimilda í fjárveitingar til einstakra stofnana og verkefna.

Í ár var sá háttur hafður á að fjárlagafrumvarpið var birt að morgni þingsetningardags. Er það í fyrsta skipti sem frumvarpið er birt opinberlega áður en það er formlega lagt fram á Alþingi. Markmiðið með þessari breytingu er að gefa þingmönnum meiri tíma til að kynna sér efni frumvarpsins og skapa þannig grundvöll fyrir málefnalegri umræðu um efni frumvarpsins þegar það er rætt á Alþingi. Jafnframt vek ég athygli á því að talnaefni frumvarpsins er nú allt aðgengilegt á tölvutæku formi.

Í umræðum síðastliðið vor komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar frá þingmönnum og hv. fjárlaganefnd. Leitast hefur verið við að koma til móts við þær eftir föngum og kann ég hv. þingmönnum bestu þakkir fyrir samvinnu við það.

Frú forseti. Í tengslum við þetta vil ég einnig nefna að með breyttu verklagi er mikilvægt að afgreiðslu á frumvarpinu ljúki fyrr en verið hefur. Þannig er gert ráð fyrir því, samkvæmt starfsáætlun Alþingis, að 3. umr. frumvarpsins verði 23. nóvember. Það er mikill áfangi ef hægt væri að ljúka afgreiðslu frumvarpsins á þeim tíma og að sami skapi nauðsynlegt með vísan til þeirrar kröfu sem lög um opinber fjármál gera. Það auðveldar ríkisstofnunum, sem eiga að vinna eftir fjárlögum, skipulag sinnar vinnu.

Með því að ljúka afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrr en ella gefst enn fremur kostur á að hefja undirbúning að komandi fjármálaáætlun fyrr með það að markmiði að hægt verði að leggja hana fyrir Alþingi um miðjan mars og auka þannig þann tíma sem þingið hefur áætlunina til umfjöllunar.

Frú forseti. Meginverkefni ríkisstjórnar og Alþingis á næsta ári er að varðveita þann góða árangur í efnahagsmálum sem náðst hefur á undanförnum misserum. Verðbólga er lítil, vaxtastigið hefur lækkað, atvinnuleysi er í lágmarki og kaupmáttur er mikill. Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar, jafnvægi og framsýni, eru ekki úr lausu lofti gripin. Íslendingar eru vanir miklum sveiflum í efnahagslífinu. Hátt raungengi krónunnar, mun hærri vaxtakostnaður en hjá erlendum samkeppnisfyrirtækjum og miklar launahækkanir á skömmum tíma hamla íslenskum fyrirtækjum í samkeppni við erlend fyrirtæki sem búa við annað rekstrarumhverfi.

Í fjármálaáætlun síðastliðið vor var boðað að tilfærslur yrðu í virðisaukaskattskerfinu þannig að nokkrir flokkar ferðaþjónustu færðust úr lægra þrepi virðisaukaskatts í almennt þrep 1. júlí árið 2018, en almenna þrepið yrði svo lækkað úr 24% í 22,5% 1. janúar 2019. Í ljósi þess að ábendingar hafa komið fram um að fyrirvari á skattbreytingum væri lítill, auk þess sem óæskilegt væri að gera tvær breytingar á skattkerfinu á skömmum tíma í stað einnar, var ákveðið að fresta gildistöku breytinga til 1. janúar 2019. Sambland af tekju- og gjaldaráðstöfunum tryggja að afkomumarkmiði fjármálastefnunnar verður náð þrátt fyrir að gildistöku breytinganna hafi verið frestað um sex mánuði.

Frú forseti. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2018 gerir að þessu sinni ráð fyrir 44 milljarða afgangi fyrir það ár. Það jafngildir 1,6% af vergri landsframleiðslu og er aukning um 0,6% frá gildandi fjárlögum. Ég vek athygli á því að gangi áætlanir frumvarpsins eftir mun sá hluti frumgjalda ríkisins sem ákvarðaður er með útgjaldarömmum fyrir málefnasvið ráðuneyta aukast um 13% að raunvirði á tveimur árum. Það er líklega meiri raunhækkun útgjalda á tveggja ára tímabili en sést hefur undanfarna áratugi. Þrátt fyrir þetta tekst okkur að skila heildarafgangi upp á 3,8% af vergri landsframleiðslu. Ljóst er að á næstu árum munum við ekki sjá viðlíka vöxt í útgjöldum ríkisins. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að opinbert fé sé vel nýtt, að starfsemi hins opinbera sé skilvirk og að útgjöldum verði forgangsraðað með virkum hætti.

Virðulegi forseti. Kaupmáttur heimilanna hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin misseri og er nú hærri en nokkru sinni fyrr. Mikilvægt er að stöðugleiki á vinnumarkaði verði sem mestur svo að hægt verði að varðveita þá kaupmáttaraukningu og þann góða árangur sem náðst hefur í efnahagslífinu almennt. Eftir umfangsmiklar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna um áramótin 2016–2017 er áfram unnið að því að jafna kjör starfsmanna hins opinbera og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin styður aðila vinnumarkaðarins í frekari umbótum á íslenska vinnumarkaðslíkaninu að norrænni fyrirmynd. Kjarasamningar eiga að skapa opinberri starfsemi hagstæð skilyrði og stuðla þannig að hagkvæmni og góðri frammistöðu.

Útgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið mikið í fjárlagafrumvarpinu í takti við stefnu stjórnvalda. Alls hækka útgjöld til velferðarmála um 8%, eða 4,4% umfram verðlag og launahækkanir, samanborið við fjárlög 2017. Hafin verður vinna við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og þar er bætt við 1,5 milljarða kr. framlögum umfram þau sem kynnt voru í síðustu fjármálaáætlun, sem stafar af breytingu á byggingaráætlun. Fyrirsjáanlegt er að aukinn stofnkostnaður vegna þessara framkvæmda mun falla á árin 2019 og 2020. Þessar breytingar munu koma fram í fjármálaáætlun næsta vor.

Nýtt sjúkrahótel tekur til starfa á fyrri hluta næsta árs. Hjúkrunar- og dagdvalarrýmum verður fjölgað, innviðir stofnana styrktir, teymisvinna efld og fjarheilbrigðisþjónusta styrkt. Skimun hefst fyrir krabbameini í ristli, ráðgjöf um heilsueflingu er efld og heilsueflandi samfélögum fjölgað. Innkaup lyfja verða styrkt, meðal annars í samvinnu við önnur lönd.

Í ljós hefur komið að útgjöld til almannatrygginga á árinu 2017 eru hærri en ætlað var. Því veldur meðal annars vanáætlaður kostnaður vegna hækkunar viðmiða ellilífeyris í lágmarkslaun, en hins vegar fjölgun örorkulífeyrisþega umfram áætlun. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að dregið verði úr skerðingum lífeyris vegna atvinnutekna og á kjörtímabilinu verði 100 þúsund kr. frítekjumarki náð.

Framlög á hvern framhaldsskólanema halda áfram að hækka og máltækni verður studd dyggilega á grundvelli nýrrar aðgerðaáætlunar.

Þungi verður í greftri Dýrafjarðarganga og framkvæmdir og viðhald vegakerfisins verða áberandi á árinu.

Frú forseti. Heildarskuldir ríkissjóðs hafa lækkað fyrri hluta árs 2017 um nálægt 200 milljarða kr. með lækkun vaxtakostnaðar upp á meira en 8 milljarða. Áfram eru vaxtagreiðslur þó afar stór útgjaldaliður og munu nema 72,7 milljörðum kr. á árinu 2018. Hreinar skuldir hins opinbera eru enn umfram 30% skuldareglu laga um opinber fjármál, en ráðgert er að því marki verði náð árið 2019. Áætlanir gera ráð fyrir að halda svo áfram niðurgreiðslu skulda enda gerir hátt vaxtastig á Íslandi skuldsetningu afar dýra.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er áhersla á samræmt kerfi grænna skatta. Ísland má ekki láta sitt eftir liggja í framlagi til mengunarvarna. Við erum aðilar að alþjóðlegum samningum þar um, en ekki vegur minna að Íslendingar vilja hreint land og hreint andrúmsloft. Í fjárlagafrumvarpinu er stigið mikilvægt skref í þessa átt með hækkun kolefnisgjalds og samræmingu í gjaldtöku af bensíni og dísilolíu, auk þess sem ívilnanir vegna kaupa á rafbílum verða framlengdar um þrjú ár.

Áfram verður markvisst unnið gegn skattundanskotum og nýtingu skattaskjóla sem og vexti svarta hagkerfisins með hertum aðgerðum skattyfirvalda. Þegar liggja fyrir margvíslegar tillögur frá þremur starfshópum sem skiluðu áliti nú í sumar sem miða allar að því marki. Nú er unnið að því að færa þær í lagabúning og mun frumvarp þessa efnis sjá dagsins ljós á vorþingi.

Virðulegi forseti. Samkvæmt mælingum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, er ekkert land með meiri tekjujöfnuð, ekkert land með minni kynjamun og ekkert land með minni fátækt en Ísland. Fá lönd hafa notið viðlíka hagvaxtar og Ísland og fjárlagafrumvarp 2018 sýnir glöggt að þessi hagfellda þróun bætir ekki eingöngu stöðu fólks á vinnumarkaði, heldur einnig stöðu þeirra sem reiða sig á stuðning velferðarkerfisins. Samkeppnishæf lífskjör, sem halda í og laða að hæfileikafólk, felast meðal annars í tryggu velferðarkerfi, hóflegum sköttum, skilvirkum ríkisrekstri og neytendavænum markaði.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir megininntak fjárlagafrumvarpsins, frumvarps sem mun styðja við stöðugan og sjálfbæran ríkisrekstur og stuðla að jafnvægi og velferð. Ég mælist til þess að frumvarpið gangi til hv. fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.