147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[10:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 135 er tafla þar sem borin eru saman fjárlög 2017 og frumvarp 2018 og sagt að breyting þar á milli sé um 18 milljarðar kr. Vandamálið er að ýmsir fjárlagaliðir í fjárlögum 2017 voru vanáætlaðir og eru ekki, eftir því sem ég best veit, reiknaðir inn í þessar upphæðir í fjárlögum 2017. Ef maður tekur til dæmis lyf og lækningavörur, sem eru uppfærðar í frumvarpi 2018, hælisleitendur og nokkra aðra liði er talan jafnvel komin niður í 11 til 12 milljarða sem er hækkun á milli fjárlaga 2017–2018. Þegar við tölum aðeins um þennan vöxt í útgjöldum finnst mér vanta að taka tillit til þeirra leiðréttinga sem á eftir að gera á fjárlögum 2017 þegar bera á saman við fjárlög 2018; svona um að „blása út báknið“ eins og kemur oft hægra megin frá.

Ég er að velta því fyrir mér hvort einhver greining hafi farið fram á þessum mun,(Forseti hringir.) á því sem vantar upp á fjárlög 2017, fyrir þennan samanburð.