147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég tek undir með honum, þó að flugið sé nú ekki beint umhverfisvænt þá er það auðvitað bara eina tengingin mjög víða. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir peningum sem einhverju skipta til þess að mæta þeirri kröfu. Það er búið að skipa vinnuhópa og þeir eru búnir að skila af sér. Það er enn annar hópur í gangi. Við erum alltaf að stofna einhverja vinnuhópa sem skila af sér tillögum en svo þarf alltaf að skipa nýja vegna þess að það kemur ný ríkisstjórn eða eitthvað til þess að búa til einhverjar aðrar niðurstöður.

Að mínu viti hefði átt að vera löngu búið að gera þetta, þ.e. mæta innanlandsfluginu sem almenningssamgöngum. Almenningssamgöngurnar í hinum dreifðu byggðum duga okkur ekkert til daglegs reksturs. Það veit ráðherra jafn vel og ég.

Hver aðhaldskrafan á að vera, það er auðvitað misjafnt. Það er kannski það sem var gert hér rétt eftir hrunið. Þá sættu t.d. þessar viðkvæmu stofnanir minna aðhaldi en sumar aðrar þurftu að sæta. Það held ég að við þurfum að skoða hverju sinni, þ.e. hvort grunnþjónusta (Forseti hringir.) okkar sæti minna aðhaldi, það gangi ekki jafnt yfir alla.