147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:51]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna. Undir lok hennar minntist hann á tillögur Pírata til tekjuöflunar. Ég kann vel að meta þegar menn brjóta upp ræðurnar og kvarta ekki bara yfir því að það vanti útgjöld hingað og þangað heldur leggja hugmyndir, tillögur inn í umræðuna. Hann nefndi eðlilegan hlut í nýtingu auðlindanna. Veruleiki okkar er mismunandi sem störfum á Alþingi og uppruni okkar er mismunandi. Við berum virðingu fyrir því.

Veruleiki minn er þessi, hv. þingmaður: Í byggðarlögum sem ég er fulltrúi fyrir horfir fólk nú framan á samdrátt og samþjöppun sjávarútvegsfyrirtækja m.a. vegna veiðigjalda og að sjálfsögðu líka vegna annarra þátta. En drifkraftur þeirrar samþjöppunar og þess að fyrirtæki hörfa nú frá byggðum og þess að fólk missir atvinnu er óumdeilt gjaldtaka sem við höfum nefnt veiðileyfagjöld.

Þá langar mig að biðja hv. þingmann að svara fólki á Snæfellsnesi, Akranesi og víða um land fyrir mig og deila með því sýn sinni á það hvernig þessi eðlilega hlutdeild í nýtingu auðlindanna getur birst þessu fólki þegar veruleikinn í dag er með þeim hætti sem ég hef hér lýst.