147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram að vandamálið með veiðigjöldin er hversu seint þau eru innheimt og þá ekki miðað við núvirði. Mig langar að fá að vekja athygli á því fyrst hv. formaður fjárlaganefndar nefndi það, að samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 10,2 milljarða innheimtu á veiðigjöldum í verkefninu um aukna sátt um greiðslufyrirkomulag af sameiginlegum auðlindum hafsins. Í fjárlagafrumvarpinu, sem er byggt á fjármálaáætlun, er gert ráð fyrir tekjum upp á 10,2 milljarða. Það er bara verið að fara eftir fjármálaáætlun. Byggt er á verkefni um innheimtu á veiðigjöldum eða einhvers konar gjöldum af sameiginlegum auðlindum hafsins í þeirri sátt sem talað er um í fjármálaáætlun. Sáttin er nokkuð sem við horfum mikið til sem lýðræðisflokkur. Ég hlakka til að sjá framvindu starfs þeirrar nefndar sem á að vinna að þessari sátt. Mér finnst mjög áhugavert að gert sé ráð fyrir þessum 10,2 milljörðum í tekjur áður en búið er að klára sáttameðferðina.