147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að halda áfram með það, núverandi kerfi gerir það ekki í alvöru, það er nákvæmlega vandamál núverandi kerfis. Það væri auðvelt að klúðra þessum árangri, það er alveg rétt. Það er varað við því í fjárlagafrumvarpinu; að breikka skattstofnana ellegar hrapa tekjurnar þegar fer að hægjast um. Hvaða skattstofna á að breikka núna á næstunni?

Ég sagði hins vegar að það hefði verið auðvelt að komast hingað miðað við þær aðstæður sem hafa verið. Það hefði verið mjög erfitt að klúðra því að komast hingað. Það er auðvelt að klúðra því til framtíðar, ég er alveg sammála því. Það er varað við því í fjárlagafrumvarpinu. Þess vegna spyr ég: Hvernig eigum við að fara eftir þeim ráðleggingum?

Varðandi hitt málið, eins og ég sagði áðan er núverandi kerfi að skemma byggðir landsins. Þess vegna finnst mér mjög undarlegt að eigi að snúa þeirri spurningu upp á mig.