147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:27]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvar hennar. Ég verð bara að gera þá játningu, virðulegi forseti, að ég þekki ekki þær arðgreiðslur sem hún nefndi hérna, mundi kannski vilja biðja hana í seinna andsvari að fjalla nánar um það svo að ég geti svarað því með beinum hætti.

Hitt vil ég segja sem mitt lífsviðhorf að mitt eðli stendur til þess að menn séu ekki að maka krókinn á jafn viðkvæmri þjónustu og þjónustu við sjúkt fólk. Ég er alveg til samtals um það. Þó að ég geti alveg stutt, og styð, að við færum þau verkefni og þá þjónustu í auknum mæli í hendur einkaaðila, þá vil ég ekki heldur að það verði að einhverjum stórgróðafyrirtækjum. Ég hef einfaldlega ekki samvisku til þess og get hvar sem er staðið fyrir þeirri meiningu. Hvernig ég get útfært það síðan er önnur og dýpri umræða sem ég ræð ekki við í þessu andsvari.

Já, það er nákvæmlega það sem ég er að reyna að kalla fram í þessari umræðu, hv. þingmaður, hvernig við notum þessa skattpeninga betur. Það snýst nákvæmlega um þau atriði sem þingmaðurinn taldi hérna upp. Erum við að veita nægilega góða þjónustu með þeim fjármunum sem við erum að innheimta? Það er í raun og veru vinnan okkar. Höfum við sannfæringu fyrir því að við séum að gera það besta úr þeim fjármunum sem við tökum af skattborgurum og ráðstöfum með þeim hætti?