147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:32]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018 og þær áherslur sem í því koma fram og stefnu ríkisstjórnarinnar í helstu málum.

Það hefur verið gagnrýnt að ríkisstjórnin leggi ekki nægilega áherslu á velferðarmálin í þessu frumvarpi. Sú umræða heyrðist raunar líka í umræðum um fjármálaáætlun í vor. Engu að síður sjáum við að aukningin í velferðarmálunum er einmitt hvað mest áberandi. Það er sá málaflokkur sem tekur langmest til sín í útgjaldaaukningu milli ára og heldur áfram þar sem frá var horfið í fjárlagavinnunni fyrir árið 2017.

Á árinu 2018, gangi frumvarpið fram eins og það liggur fyrir nú, mun um 51% af útgjöldum ríkissjóðs renna til velferðarmála. Er það hæsta hlutfall sem við höfum séð á undanförnum árum. Og það sem munar meira um: Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun er gert ráð fyrir að þetta hlutfall fari enn hækkandi eftir því sem líður á gildistíma áætlunarinnar og verði þá með hæsta móti, að ég hygg, um 53% undir lok tímabilsins.

Þetta sýnir auðvitað forgangsröðunina í verki. Við leggjum gríðarlega mikla áherslu bæði á félagsmál og heilbrigðismál, sem endurspeglast m.a. í því að við erum jú að hefja byggingu Landspítala á næsta ári, verkefni sem beðið hefur verið eftir undanfarna tvo áratugi og aldrei hefur verið komist í fyrr en nú. Það eru auðvitað gríðarleg tímamót fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Við leggjum líka mikla áherslu á heilsugæsluna, á geðheilbrigðismálin, á ýmis félagsmál eins og hækkun fæðingarorlofs, húsnæðismál — bæði ungs fólks en líka húsnæðismál allra — þar sem við leggjum fjármagn í stofnstyrki til byggingar á almennum leiguíbúðum, sem vissulega er rétt eins og bent hefur verið á í umræðunni að við erum að uppfylla skuldbindingar ríkissjóðs en við erum jafnframt að bæta þar við umfram þær skuldbindingar sem gefnar voru. En við erum líka að grípa til ýmissa annarra aðgerða samhliða þessu, raunar 14 tölusettra aðgerða til þess að taka á þeim mikla húsnæðisvanda sem er um þessar mundir og hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum. Hann hefur raunar leitt til þess að í augnablikinu glímum við við verðbólu á fasteignamarkaði vegna skorts sem bitnar helst á þeim tekjulægstu, ungu fólki sem er að stíga fyrstu skrefin inn á húsnæðismarkaðinn. Þar af leiðandi skiptir gríðarlega miklu máli að vel takist til við að leysa úr þessum vanda.

Við höldum áfram uppbyggingu almannatryggingakerfisins með því að hækka lágmarksfjárhæð til þeirra sem einir búa úr 280 þús. kr. á mánuði í 300 þús. kr. til þess að þar fylgist að lágmarkslaun á vinnumarkaði og lágmarksfjárhæð almannatrygginga. Í menntamálum horfum við til verkefna eins og máltækniverkefnisins, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir framtíð tungumálsins okkar. En jafnframt, þrátt fyrir gagnrýni um ónógt framlag til bæði framhaldsskóla og háskóla, sjáum við þar hækkandi framlög á hvern nemenda á báðum stigum.

Þessu samhliða er lögð gríðarleg aukning í nýsköpun í atvinnulífinu, í að efla nýsköpunarumhverfi atvinnulífsins, og það skiptir auðvitað miklu máli. Þrátt fyrir að vel hafi árað á undanförnum árum hefur því miður fjarað talsvert undan því hagstæða umhverfi sem hér skapaðist fyrir nýsköpunarfyrirtæki skömmu eftir hrun og leiddi af sér mikla grósku á því sviði. Við sjáum að þar horfum við enn og aftur framan í afleiðingar hins sveiflukennda íslenska hagkerfis og sveiflukenndrar myntar. Það er kannski þegar öllu er á botninn hvolft það sem mestu máli skiptir í þessum fjárlögum ef frá er talin áherslan á velferðarmálin, áherslan á ábyrga fjármálastjórn hins opinbera. Að við förum ekki fram úr okkur eina ferðina enn, að ríkisfjármálin verði ekki enn og aftur til að kynda undir þenslu, auka verðbólguþrýsting, valda hækkandi vaxtastigi umfram það sem þegar er, og þykir nú flestum nóg um.

Ítrekað hefur verið bent á þennan veikleika ríkisfjármálanna. Stjórnvöld hafa ítrekað í gegnum árin og raunar áratugina verið gagnrýnd fyrir það sama, að þegar fjármagn streymir inn í ríkissjóð er því eytt jafnharðan og mesta útgjaldaþenslan verður á tímum uppgangs. Þá verður ekkert svigrúm eftir þegar dregur saman í hagkerfinu aftur, eins og alltaf gerir á endanum. Þá hefur ríkissjóður ekki ráð á að ráðast í fjárfestingar í innviðum, ekki ráð á að sinna grunnþjónustu sinni með sóma. Það er það sem hér er verið að leggja grunn að að endurtaki sig ekki. Að við höfum svigrúm í ríkisfjármálunum þegar aftur dregur saman til þess að ráðast af krafti í innviðauppbyggingu, til þess að geta sinnt grunnþjónustunni svo sómi sé að og til þess að við leggjum hagstjórninni lið, höldum vaxtastigi eins lágu og kostur er, höldum verðbólgunni niðri eins og við höfum sem betur fer búið við núna mörg undangengin ár, eitt stöðugasta verðlag sem við höfum fengið að kynnast um langt árabil.

Fátt skiptir heimilin meira máli. Það verður að hafa í huga í þessu samhengi. Það eru einmitt þeir tekjulægstu, þeir sem síst mega við svo öfgakenndum sveiflum, sem líða fyrir þær, líða fyrir verðbólguna, líða fyrir hátt vaxtastig og öfgafullar sveiflur á húsnæðismarkaði þar sem ýmist er byggt allt of mikið eða allt of lítið. Það er þessi hópur sem við eigum ekki síst að hugsa til þegar við horfum til agaðrar hagstjórnar. Þar heyrist gjarnan þessi gagnrýni: Hér ætti að auka enn við í útgjöldum, þrátt fyrir að við horfum á metaukningu ríkisútgjalda á skömmum tíma. Hér ætti að hækka skatta til að fjármagna þá útgjaldaaukningu, þrátt fyrir fullkomna óskynsemi þess að fjármagna eða auka samneysluna á hápunkti hagsveiflunnar með skattahækkunum. Það þýðir með öðrum orðum að undir þeirri aukningu verður ekki nokkur fótur þegar dregur saman aftur og þarf í raun umsvifalaust að kippa þeirri þjónustu sem þannig er uppbyggð til baka aftur eins og við höfum áður lent í. Við höfum áður þurft að glíma við það að klippa um hæl á loforð stjórnmálamanna, jafnvel árið eða tveimur eftir að þau eru gefin, þar sem dregið hefur saman í hagkerfinu á nýjan leik.

Fram hefur komið í umræðunni að einhverjum í minni hlutanum þyki sem málflutningur Viðreisnar í þessum efnum komi á óvart. Okkur hefur svo sem verið raðað á bás allt yfir hið pólitíska litróf, ef þannig mætti orða það. Það ætti hins vegar ekki að koma neinum á óvart á hverju við byggjum hugmyndafræði okkar, fyrir hverju við berjumst. Við tölum um réttlátt samfélag, um viðskiptafrelsi, um jafnvægi. Við leggjum áherslu á velferðarkerfið og uppbyggingu þess, á stöðugleika í efnahagsumhverfinu, ábyrga fjármálastjórn ríkissjóðs og við leggjum áherslu á frelsi, viðskiptafrelsi, jöfn tækifæri, tækifæri til að bæta stöðu sína, hvort heldur er einstaklingur eða fyrirtæki.

Þetta jafnvægi sem við leitum eftir í okkar stefnu er ágætlega endurspeglað í þeim áherslum sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu sem hér liggur fyrir. Auðvitað er það svo þegar við horfum til heilbrigðiskerfis, málefna eldri borgara, stöðu ungs fólks, þegar kemur t.d. að húsnæðismarkaði, að margt má betur fara. Að sjálfsögðu er lagt af stað á grundvelli fimm ára áætlunar þar sem einmitt er lögð áhersla á þessi málefni.

Eitt myndi ég sérstaklega vilja nefna í því samhengi en það er sú gagnrýni sem húsnæðisstuðningur, þ.e. minnkandi vaxtabætur hljóta hér. Þar gleymist að við erum líka að byggja, samhliða vaxtabótunum, á nýju stuðningskerfi til húsnæðiskaupa hjá ungu fólki sem ég held að sé mjög vanmetið í þessari umræðu, en það er einmitt séreignarsparnaðarleiðin. Hún gleymist mjög gjarnan. Þar er verið að hvetja fólk til að nýta sér sparnaðarúrræði sem nokkuð fáir eða lágt hlutfall ungs fólks nýtir sér í dag, þar sem það getur lagt 2% til hliðar, fengið 2% mótframlag frá vinnuveitanda sínum og þar af leiðandi tvöfaldað sparnaðinn sinn og notið svo skattfrelsis hins opinbera þegar kemur að fyrstu kaupum. Ég held að þetta sé eitt það sterkasta úrræði sem við höfum haft til þess að styðja ungt fólk til fyrstu húsnæðiskaupa. Ég held að við ættum að horfa betur til þess hvernig við getum byggt í kringum það úrræði.

En ég ætla ekki að hafa mín orð fleiri. Ég tek þó fram til að taka af allan vafa að hér tala ég auðvitað sem þingmaður Viðreisnar en ekki félagsmálaráðherra.