147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:52]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hér er spurt sérstaklega út í málefni öryrkja. Það er rétt að við fórum í gegnum mjög mikla kerfisbreytingu á ellilífeyriskerfi almannatrygginga sem hv. þingmaður stóð að sem félags- og húsnæðismálaráðherra á þeim tíma, en öryrkjar voru skildir eftir. Því miður virðumst við þurfa nokkurn tíma til viðbótar til þess að freista þess að ná sátt um þær breytingar við þá hagsmunaaðila og þá sér í lagi öryrkja sjálfa. Ég skil áhyggjur Öryrkjabandalagsins í þeim efnum þegar kemur að því að breyta núverandi fyrirkomulagi úr örorkumati yfir í starfsgetumat, að atvinnutækifæri og sveigjanlegur vinnumarkaður verði fyrir hendi til þess að mæta breyttu kerfi, sem ég reyndar er sannfærður um að sé, en ég þarf auðvitað að ganga úr skugga um að þá hafi verið hugað vel að áður en við hrindum þeim breytingum í framkvæmd.

Við gerum þess vegna ráð fyrir því að þau frumvörp komi fram núna í vetur, verði vonandi kláruð fyrir næsta vor. Ég á þar af leiðandi ekki von á því að það verði raunhæft að ljúka þeirri vinnu eða hvað þá að þær breytingar taki gildi fyrr en um áramótin 2018/2019. Hins vegar er í fjárlagafrumvarpinu núna gert ráð fyrir sambærilegri hækkun gagnvart lágmarks- eða tekjutryggingu einstæðinga sem búa einir, þ.e. hækkun úr 280 þús. kr. í 300 þús. kr. á mánuði hjá öryrkjum líkt og ellilífeyrisþegum og verið er að hækka almennar bótafjárhæðir um 4,7% líkt og hjá ellilífeyrisþegum.