147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:54]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka hvatningu mína til hæstv. ráðherra um það að reyna að koma breytingum á lífeyriskerfi öryrkja sem allra fyrst í þingið. Ég þekki ágætlega til ágreinings sem snýr að starfsgetumatinu, en hins vegar er ekki sambærilegur ágreiningur sem snýr að breytingum varðandi lífeyrinn sjálfan, ekki hvað síst þar sem við erum að tala um allt að því fjórðungshækkun á lífeyri þeirra sem minnst hafa.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Komið hafa mjög ákveðnar ábendingar frá verkalýðshreyfingunni um mikilvægi þess að hækka atvinnuleysisbætur. Þar hefur jafnframt verið bent á mikilvægi þess nú í aðdraganda kjaraviðræðna að hugað verði að persónuafslættinum og hækkun hans. Þar eru menn enn á ný að tala um hvað það er sem getur nýst best þeim sem eru með lægstu tekjurnar, minnst á milli handanna. Því hefði ég áhuga á að heyra frá ráðherranum hvort hann hafi í hyggju að mæta óskum verkalýðshreyfingarinnar um annars vegar hækkun atvinnuleysisbóta og hins vegar hækkun persónuafsláttar.