147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir að við höfum svigrúm þegar þrengir að. Einnig er nefnt að skattstofnarnir eigi að vera sveigjanlegri. Þá skýtur aðeins skökku við að mæla þá ekki með því að skattstofnarnir verði breikkaðir, það verði fleiri fætur undir borðinu sem hjálpa til, eins og bent er á í fjárlagafrumvarpinu, ef hægist um þá detta niður þessir stórvægilegu stofnar sem við stólum á núna. Ef við værum með fleiri og fjölbreyttari skattstofna væru jafnvel þeir sem við stólum á núna lægri. Það er líka hægt að segja að þegar skattmöguleikum fjölgar væri hægt að hafa lægri virðisaukaskatt og tekjuskatt einstaklinga, en ekki bara það að verið sé að hækka heildarskattbyrðina með því að fjölga möguleikunum. Það gerir líka að verkum að þegar þarf að stilla þá til væri auðveldara að stilla til prósentu hvers skattstofns en að bæta alveg nýjum við.

Þannig lít ég dálítið á kerfið og þá ábendingu sem er í fjárlagafrumvarpinu um að nauðsynlegt sé að fjölga skattstofnum og breikka þá til þess að geta betur brugðist við þegar fer að hægjast um. Þá er ég ekki að segja að heildarskattbyrði eigi að hækka heldur einfaldlega að það sé breiðara bak skattalega séð þegar efnahagssveiflur fara af stað.