147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:01]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður óskar eftir betri útskýringum. Það er sjálfsagt að spreyta sig á því. Þegar við tölum um tekjuskattskerfið sjálft er mjög mikilvægt að við horfum til tekjujöfnunarþáttar þess og það er nákvæmlega það sem ég átti við með núverandi persónuafsláttarkerfi. Það gagnast öllum tekjuhópum, alveg óháð því hvort viðkomandi er með 2 milljónir á mánuði eða 200 þúsund. En vissulega vegur það þyngra í skattprósentu eða virku skattprósentunni hjá þeim sem er með lægstar tekjurnar.

Ég held að hægt sé að gera þetta kerfi enn betra með því að vera með háan persónuafslátt fyrir tekjulægsta hópinn, sem hverfur svo út einhvers staðar á miðri leið, stiglækkandi með vaxandi tekjum. Þær hugmyndir sem hafa verið settar fram í þeim efnum byggja líka á tveggja þrepa skattkerfi þar ofan á. Það er orðið mjög margþrepa skattkerfi sem er þannig og mjög auðafstillanlegt einmitt til að bregðast við áskorunum eins og þeim sem hv. þingmaður lýsir þar sem við þurfum að gæta þess að hlífa tekjulægstu hópunum þegar ríkið þarf að afla aukinna tekna.