147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir orð hv. þingmanns um nýsköpunaráætlanirnar. Mig langaði aðeins að halda áfram með umræðuna um skattana sem jöfnunartæki og það sem hæstv. ráðherra talaði um áðan. Hann sagði að þetta væri ekki endilega jöfnunartæki heldur að markmiðið væri að setja þá þannig að byrði væri ekki sett á þá verst settu, það sé ekki aukin byrði sett á þá sem hafa það verst, segir þetta sem félags- og jafnréttismálaráðherra, þannig að þeir geti ekki staðið undir skattálögum sem eru til staðar. Fyrir mér hljómar þetta einfaldlega sem það sama, skattar sem jöfnunartæki og að passa að þeir séu ekki settir óhóflega á þá sem hafa það verst.

Þá velti ég fyrir mér af hverju við höfum ekki breiðari skattstofna, sem í raun þýðir að við getum á mun auðveldari hátt skipt um það hver dregur vagninn. Þegar við lendum í ákveðnum hægagangi í efnahagnum þá hefur það ekki jöfn áhrif á alla, en þá getum við stillt skattkerfið á þann hátt að einn sem hefur það mjög gott í því ástandi dregur vagninn í smástund þangað til betur horfir.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður og hæstv. ráðherra séu ekki í raun að tala um það sama, bara nota mismunandi orð. Ég heyri alla vega ekki neinn mun á þessu nema bara mismunandi orðaval um það hvað er jöfnunartæki og að skattar eigi ekki að leggjast á þá sem eru verst settir.