147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi nokkur atriði sem áhugavert væri að staldra aðeins við og fjalla um. Annars vegar er það stöðugleikinn. Eins og ég nefndi í ræðu minni finnst mér stöðugleiki vera hæfnin til að breytast og aðlagast breyttum aðstæðum. Stöðugleiki er ekki eitthvað sem við getum stólað á því að samfélagið sjálft breytist svo ört að ef við höldum í óbreytt ástand verðum við úrelt mjög snemma. Ég vildi athuga hvort það gæti verið réttur skilningur hjá mér og sami skilningur hjá fleirum, ef hv. þingmaður gæti svarað því.

Einnig var fjallað um skattstefnu Sjálfstæðisflokksins, sem er samkvæmt hv. þingmanni ekki þekktur fyrir að hækka skatta heldur lækka skatta. Ég er ekki sammála því. Ég segi að þeir hækki bara samt skatta. Það koma ýmis gjöld sem hafa áhrif á ráðstöfunartekjurnar í staðinn. Það er mjög gaman að bera það saman við ræðu forsætisráðherra um ráðstöfunartekjur og hafa hana sem ákveðinn mælikvarða á það sem fram kom í skýrslu sem ASÍ gaf út.

Í þriðja lagi talaði hv. þingmaður um að velja réttu landshlutana til uppbyggingar. Það finnst mér mjög áhugavert því að á því kjördæmaflakki sem ég hef aðeins verið fyrir kosningar hef ég heyrt spurningar um hvort ekki eigi örugglega að gera þennan veg og þessa stíflu og eitthvað svoleiðis, og þá svara einfaldlega allir já og maður veit að alls staðar um allt land svara allir í öllum félagsheimilum já við sömu spurningum. Við vitum alveg að við getum ekki uppfyllt það allt. Eigum við ekki að jafnaði að vinna að betra skipulagi þannig að það sé meiri fyrirsjáanleiki í uppbyggingar og jafnóðum-uppbyggingar í stað þess að þurfa alltaf að hoppa fram og til baka, til að gera einhverja holu í fjall hérna og steinvegg í gljúfur þarna, tilviljanakennt eftir því sem við á vegna þess að eitthvað gerðist? Getum við ekki verið aðeins (Forseti hringir.) fyrirsjáanlegri með það í stað þess að detta í kjördæmapot?