147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:33]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, stöðugleiki er ekki það sama og óbreytt ástand. Með stöðugleika er frekar átt við að halda ákveðnu jafnvægi, þ.e. jafnvægi til að draga úr vaxandi verðbólgu og þar með rýrnun kaupmáttar. Í stað þess að nota orðið stöðugleika ættum við kannski að nota orðið jafnvægi. En stöðnun, það er ekki samasemmerki þar á milli því að óbreytt ástand er óhugsandi. Auðvitað breytast hlutirnir í eðli sínu.

Landshlutarnir, samgöngubætur. Ég hef fengið þær upplýsingar frá Vegagerðinni, og ég held að hv. þingmaður hafi fengið þær líka þar, að framkvæmdir vegna samgangna þurfi ekki endilega að vera þensluhvetjandi. Þar getum við kannski sett þetta í samhengi við hagvöxt á svæðum, eins og ég nefndi áðan.

Fyrirsjáanleikinn þarf jú að vera til staðar. Gerð er tilraun til þess í samgönguáætlun að búa til ákveðið plan til næstu ára. En eins og við ræddum í vor í samhengi við fjármálaáætlun rákumst við á það, og höfum líka rætt það í hv. fjárlaganefnd, að það virðist ekki tenging á milli samgönguáætlunar og svo fjármögnunar hennar í fjármálaáætlun og í fjárlögum sem við ræðum nú. Þarna er risastórt gat á milli. Það er verkefni okkar þingmanna að tengja svo stórar og mikilvægar áætlanir saman við það fjármagn sem er til ráðstöfunar hverju sinni þannig að við getum gert raunhæfar áætlanir og byggt á einhverju haldbæru, ekki vaðið í hitt og þetta með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.