147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:41]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, verðlagsáhrifin 0,2%, rétt tæplega. (Fjmrh.: 0,1%, rúmlega.) 0,1%, já, rúmlega, vegna hækkunar eldsneytis. Ég geri ráð fyrir að hv. fjárlaganefnd fari betur yfir þessar hækkanir á fundum sínum á næstunni og skoði þetta, eins og ég nefndi áðan, einnig út frá öðrum þáttum.

Ég er sammála hæstv. ráðherra, að að sjálfsögðu eigum við að vera opin. Það kom einmitt fram hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni áðan að auðvitað er samfélagið stöðugt að breytast og við þurfum sem stjórnmálamenn að vera opin fyrir þeim breytingum. Þora að þróast áfram og gera betur. Það er okkar hlutverk.

En varðandi skattkerfið, og ég held að við séum sammála þar líka, þurfum við að fara mjög varlega. Illa ígrundaðar skattbreytingar ógna stöðugleikanum. Það er staðreynd. Við viljum ekki að verðbólgudraugurinn rísi upp á afturfæturna. (Forseti hringir.) Við höfum náð að halda verðbólgunni tiltölulega lágri og stöðugri núna í nokkurn tíma og ég geri ráð fyrir að við séum sammála um að þannig viljum við hafa það.