147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta hafa verið áhugaverð samtöl hér. Ég átti orðastað við ráðherra á síðasta þingi um þensluhvetjandi aðgerðir í byggðum, eða útboð í vegasamgöngum og öðru slíku, og lagði til að það yrði greint. Sú vinna átti að fara af stað. Ég held að það sé nú bara gott ef við sjáum eitthvað slíkt. Við eigum auðvitað alltaf að horfa á hlutina, hvort sem það eru fjárlög eða annað, með byggðagleraugunum.

En mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í afstöðu hennar til skattamálanna sem hér hafa verið til umræðu. Það var 7,2% hagvöxtur á síðasta ári. Það hefur ekki verið talið skynsamlegt að lækka skatta í árferði eins og við búum við núna. Frekar að eiga inni fyrir því þegar niðursveiflan kemur til að örva hagkerfið og örva eftirspurn, að þá sé möguleiki á að lækka skatta. Nú sjáum við að samneyslan hefur dregist saman. Tekjur ríkisins eru að lækka. Búið er að fresta virðisaukaskattinum á ferðaþjónustuna upp á 9 milljarða. Gatið er kannski ekki eins stórt vegna hækkunar á þeim gjöldum sem hér er meðal annars verið að leggja til. Mig langar að velta því upp með þingmanninum hvernig við eigum þá að bera okkur að. Það er svo sem ekki verið að fara með þessa peninga eins og ég vildi fara með þá. Ég myndi líka vilja reyna að innheimta meira til þess að geta bætt kjör þeirra sem þurfa á því að halda, til dæmis sett meiri peninga í heilbrigðisþjónustuna og allt það sem við höfum verið að ræða. Ég velti því fyrir mér hvar hún vildi bera niður. Því ég tek undir að þetta er íþyngjandi á landsbyggðinni, þótt þetta séu skattar sem skipta máli varðandi loftslagsmálin er þetta samt (Forseti hringir.) einungis einn hluti af mörgum. Þess vegna spyr ég hvar hún telji að betra væri að bera niður.