147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:45]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrst varðandi skattahækkanir á eldsneyti. Við eigum að sjálfsögðu að horfa til lengri tíma til grænna skatta. Ég er í eðli mínu ekki á móti slíkri skattheimtu. Við erum sammála um að loftslagsmálin eru stórt mál og við Íslendingar þurfum að leggja okkar af mörkum á því sviði. En ég tel alls ekki tímabært að fara í svo miklar skattahækkanir á eldsneyti núna, að minnsta kosti ekki áður en við höfum farið yfir hvort hægt sé að koma til móts við fólk sem hefur ekki þann kost að færa sig algerlega yfir á annað eldsneyti en bensín og dísil. Hvernig munum við reyna að koma til móts við það fólk, með svokölluðum mótvægisaðgerðum? Ég heyrði hv. þingmann tala í ræðu hér áðan og þá fékk hún einmitt þessa spurningu: Hvers konar mótvægisaðgerðir? Ég heyrði að hún hafði ekki beint svar á reiðum höndum. Það hef ég ekki heldur. En enn sem komið er tel ég þessa breytingu ekki tímabæra. Það gæti átt eftir að koma fram í umræðum í fjárlaganefnd, þá koma kannski hugmyndir upp á yfirborðið sem við sjáum fyrir okkur að gætu farið vel með þessu. En það þarf bara að skoða það. Sú leið sem ég hefði viljað fara í ríkisfjármálum er sú sem ég fór yfir í ræðu minni hér áðan, sú leið sem Framsóknarmenn töluðu fyrir í fjármálaáætlun í vor, þ.e. við vildum nýta þennan afgang frekar, stærri hluta hans, til uppbyggingar innviða. Ekki skila eins miklu til niðurgreiðslu vaxta og skulda. Ég skal svara þessu betur eftir smástund.