147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið, sérstaklega fyrir að benda á markmiðssetningu í þessum kafla. Þegar kemur að löggæslunni hefði átt að vera mjög auðvelt að færa markmið löggæsluáætlunar yfir í fjármálaáætlun. Það hefði verið hið faglega og eðlilega, hefði maður haldið. Nema hvað: Yfir í fjármálaáætlun rata þrjú af fjórum markmiðum löggæsluáætlunar. Því að markmiðið um að skilgreina þörf lögreglunnar fyrir fjármagn er væntanlega eitthvað sem hæstv. fjármálaráðherra kærir sig ekkert um að gera á sama tíma og hann er að skera fjármagn til lögreglunnar við nögl.

Mér finnst þingmaðurinn fullrausnarlegur við ráðherrann að segja að það eigi að leggja 400 milljónir til viðbótar til lögreglunnar. Ef við skoðum sundurliðunina: Jú, það er tímabundið 400 milljóna framlag, síðan lækkun um 20 milljónir, önnur hækkun um 357 og lækkun á móti um 124, og svo eru verðlags- og launauppfærslur sem þýðir að nettó er lögreglan að fá 154 milljónir í viðbót. Það er helvíti mikið minna en 400.