147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, fyrirgefðu að mér hafi orðið fótaskortur á tungunni áðan. Þingmaðurinn spyr áfram um markmið og aðgerðir og kostnaðargreiningu sem var bara í mýflugumynd í fjármálaáætluninni. Á þetta var bent í umsögnum sem bárust við hana í vor. Ég bendi til dæmis á það sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu benti á; hann skoðaði þau markmið sem sett voru fram á því málefnasviði og skildi ekki hvaðan þau væru komin. Ekkert samráð var haft við stofnanir, þetta var ekkert í samræmi við það sem rætt hafði verið á milli ráðuneytis eða stofnana undanfarin misseri, þetta var einhvern veginn úr lausu lofti gripið. Enginn veit hvar. Alltaf er þetta gert án kostnaðarmats og alltaf er þetta — hvað var það sem þau sögðu? Að þetta væru frekar metnaðarlítil markmið sem komi engan veginn að kjarna þess úrlausnarefnis sem málaflokkurinn stendur frammi fyrir. Það voru því plokkuð inn einhver markmið sem auðvelt væri að færa í orð og hugsanlega hægt að mæla á einhvern hátt en þau tengdust ekkert endilega meginverkefnum málefnasviðanna. Þetta er bara enn eitt dæmið um það hversu mikil handarbakavinnubrögð eru í öllu þessu ferli, frá fjármálastefnunni í gegnum áætlunina og hingað inn í fjárlögin.