147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:29]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa hugleiðingu en átta mig kannski ekki alveg á því hvort til mín var beint einhverri spurningu.

Vissulega er það rétt að fyrir suma þá muna 20 þús. kr. á mánuði miklu, en raunin er sú að hér er ekki um að ræða 20 þús. kr., hér er um að ræða 6.700 kr. eftir skatt fyrir fólk sem er með 280 þús. kr. á milli handanna á mánuði til að framfleyta sér. Þegar sú staðreynd blasir við fólki að hér sé verið að boða hækkun sem gagnast eigi þeim hópi sem hefur það erfiðast og hefur minnst á milli handanna finnst mér hreinlega — og ég held að fleiri en ég taki undir það, þar á meðal formaður Öryrkjabandalags Íslands — að þarna sé um að ræða aðgerð sem varla er hægt að stæra sig af. Hér þurfum við einfaldlega að gera betur. Ef ríkissjóður er með sína milljarða í afgang þá hlýtur að vera hægt að gera betur. Það hlýtur að vera hægt að gera betur fyrir þennan hóp. Ég skil, held ég, hvert hæstv. fjármálaráðherra er að fara með því að segja að þetta sé göfug aðgerð og að þetta muni gagnast mörgum, en staðreyndin er sú að um snautlega upphæð er að ræða. Ég held að við hæstv. fjármálaráðherra hljótum að vera sammála um það.