147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska eftir því að hv. þingmaður leggi mér ekki orð í munn um göfuga aðgerð. Ég held að ég hafi aldrei notað það orðalag. Auk þess vil ég leiðrétta það; ég held að hér rugli hv. þingmaður saman skattinum af fjárhæðinni og því sem eftir er. Það munu vera milli 12 og 13 þús. kr. sem eru væntanlega eftir af fjárhæðinni vegna þess að skattprósentan er eitthvað um 37%. Engu að síður eru þetta lágar fjárhæðir, það er vissulega rétt.

Ég þekki vel til fjárhags fólks sem er með litlar tekjur. Ég átta mig mjög vel á því að lífeyriskerfið, sem við getum að mörgu leyti verið stolt af, er götótt fyrir þá sem byrjuðu að borga í það fyrir 30 eða 40 árum af ýmsum ástæðum. Það urðu hér skerðingar vegna þess að ávöxtun var afar slök um tíma. Það var þannig að fólk gat ekki greitt af öllum launum. Lífeyrisiðgjöldin voru mun lægri en þau eru núna. Allt þetta vitum við. Úr þessu verðum við að bæta. Það er sameiginlegt verkefni okkar að reyna að tryggja það öryggisnet sem við viljum að almannatryggingakerfið sé. Við erum að reyna að byggja upp lífeyriskerfið. Frá miðju næsta ári verða greidd 15,5% af launum í lífeyriskerfið. Það á að tryggja u.þ.b. 70% af launum í lífeyri fyrir þá sem greiða allan tímann, en það hjálpar ekki þeim sem núna eru á lífeyri. Um þetta getum við verið alveg sammála.

Ég vil ekki að út úr orðum mínum sé snúið á þann veg að ég sé með einhverjum hætti að gera lítið úr því fólki sem er á þessum lágu tekjum.