147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:33]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var alls ekki ætlun mín að snúa út úr orðum hæstv. ráðherra; ég biðst afsökunar ef túlkunin hefur verið á þann veg. Það er kannski rétt að leiðrétta það sem ég sagði hér áðan að það sló saman hjá mér tölum um að hækkun lífeyris almannatrygginga um 4,7% þýði um 6.700 kr. á mánuði; en 20 þús. kr. sem hér hafa verið boðaðar, eins og ráðherra hæstv. kom inn á, eru þá um 12–13 þús. kr. á mánuði.

Svo er það líka annað atriði sem vert er að minnast á hér í seinna andsvari, það eru barna- og vaxtabætur sem sífellt færri njóta samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi, enda halda útgjöld til þeirra áfram að lækka, nú um heila 2 milljarða ef mér skjöplast ekki. Þrátt fyrir að kaupmáttur hafi aukist þá er það nú svo að barna- og vaxtabætur eru gríðarlega mikilvægt tæki til tekjujöfnunar en ekki fátæktarstyrkur líkt og hægri flokkar ríkisstjórnar Íslands álíta; því miður virðast þeir gera það. En á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hann hafi áhyggjur af lækkandi fæðingartíðni þá dregur hann úr barnabótagreiðslum til launafólks. Lækkun barnabóta er einmitt einn helsti áhrifavaldurinn í því að skatturinn hefur aukist umtalsvert síðustu 18 árin. Því verður áhugavert að vita hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra grípur til þessara aðgerða þegar hann hefur áhyggjur af lækkandi fæðingartíðni. Það finnst mér undarlegt. Það er ekki jöfnunartæki. Mér fyndist áhugavert að heyra svör við því.