147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður um þá þúsundkalla sem verið var að tala um áðan. Ég man alveg eftir því þegar maður skrimti af 500 kalli á dag þegar maður var leikskólastarfsmaður. Núna, miðað við verðbólgu, er það eitthvað í kringum 2 þúsund kall á dag eða svo, sem rétt dugar fyrir mat, samgöngum og svoleiðis.

Mig langar til að víkja aðeins að umtalinu um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu sem hv. þingmaður talaði um. Ég hef verið að velta fyrir mér spurningu undanfarið. Ef við erum með opinbert heilbrigðiskerfi sem getur sinnt allri þjónustu vel og er með háskólasjúkrahús — við erum með allt kerfið frá A–Ö. Berum umræðuna aðeins saman við heilbrigðisumræðuna sem er í löndunum í kringum okkur þar sem einn borgar það sem margir borga, á ensku heitir það „single-payer system“, og „multi-payer system“. En yfirleitt er talað um að það sé mun hagkvæmara og betra að vera með „single-payer system“, þar sem einhver einn borgar eða ríkið.

Þá langar mig til þess að spyrja hv. þingmann: Þurfa læknar, hjúkrunarfræðingar eða bara heilbrigðisstarfsfólk yfirleitt nauðsynlega að vera ríkisstarfsmenn? Þannig er umræðan eins og hún er á Íslandi þegar talað er um heilbrigðiskerfi sem á að vera opinbert rekið á móti einkarekstri innan þessa kerfis sem kallast „single-payer system“, eða þar sem hið opinbera greiðir fyrir útselda þjónustu.

Spurning mín er: Þurfa læknar, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisfólk nauðsynlega að vera ríkisstarfsmenn?