147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:37]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Þurfa læknar að vera ríkisstarfsmenn? Það er stór spurning. Við sem erum fylgjandi því að standa þurfi vörð um sérfræðiþjónustu innan opinberrar sjúkrahúsþjónustu, við sem erum þannig þenkjandi, hljótum að vilja hafa flesta sérfræðilækna innan hinnar opinberu sjúkrahúsþjónustu en ekki að þessi læknahópur fari í einkarekstur úti í bæ. Þetta er nú gamall og sígildur hugmyndafræðilegur ágreiningur sem hv. þingmaður bendir á hér. Það er nákvæmlega inntakið í þessum fjárlögum, að verið er að bæta í sérfræðirekstur utan opinberrar sjúkrahúsþjónustu. Að sjálfsögðu þurfum við að hafa sérfræðilækna innan opinberu þjónustunnar. Það þýðir náttúrlega að viðkomandi læknar eru þá ríkisstarfsmenn, á launum hjá okkur, til að þjónusta okkur þegar við þurfum á þeirri þjónustu að halda.

Ég held og tel, það er mín lífsskoðun, að hið opinbera þurfi að tryggja með öllum tækum ráðum að við öll, óháð efnahag, sama hvað við höfum á milli handanna þegar kemur að peningum, eigum kost á að njóta opinberrar sjúkrahúsþjónustu og þeirrar bestu sem völ er á, þjónustu sem ekki er undirmönnuð, undirfjármögnuð og fjársvelt, heldur er nákvæmlega besta þjónusta sem völ er á. Það þýðir að við þurfum að hafa sem flesta sérfræðilækna sem bjóða upp á bestu sérfræðiþjónustuna innan vébanda hins opinbera. Vona að þetta svari einhverjum af hugleiðingum hv. þingmanns.