147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil þetta svar þannig: Nei, heilbrigðisstarfsfólk þarf ekki nauðsynlega að vera opinbert starfsfólk. En að sama skapi er gríðarlega mikilvægt að hið opinbera kerfi sé a.m.k. jafn gott og bjóði bestu þjónustuna og að læknar sem ekki vinna sem opinberir starfsmenn reyni að keppa við það sem best gerist.

Ég er aðeins að reyna að átta mig á því jafnvægi sem er þar á milli. Hv. þingmaður bendir á að þarna sé verið að raska þessu jafnvægi. Það sem gerst hefur á undanförnum árum með samningum Sjúkratrygginga Íslands við lækna, er að það hefur verið einstefna úr opinbera kerfinu sem gerir það einmitt lélegra. Ég velti fyrir mér hvort við værum betur sett ef við mundum hafa umræðuna á þessum vettvangi í staðinn fyrir að kasta á milli okkar einkavæðingar- og opinberu stefnu-umræðunni.