147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlögin. Þetta frumvarp er 600 síður, tæplega. Við fáum tvo sólarhringa að frádregnum svefntíma til þess að undirbúa okkur. Maður setur stór spurningarmerki við skilvirknina og gæði þessarar umræðu og maður sér fram á einhverjar góðar breytingar í þessu eins og hafa kannski verið boðaðar. Það hefði verið fínt að fá þetta mun, mun fyrr.

Ég hef valið mér tvö svið sem eru háalvarleg. Það er þannig í fjárlagafrumvarpinu að vísindi og samkeppnissjóðir í rannsóknum og þekkingargreinum teljast mikilvægir í samfélaginu, mikilvægir samfélagslegir þættir, það hefur komið fram í umræðunni líka, en þar er viðhafður hreinn niðurskurður miðað við fjárlög 2017. Þetta er gert frammi fyrir nauðsyn tækniþróunar og t.d. rannsókna vegna loftslagshlýnunar. Sama gildir um rannsóknir og nýsköpun í landbúnaði. Þar eru t.d. framlög til Landbúnaðarháskólans á þessu sviði lækkuð. Maður hefði talið að þeir geirar væru undirstaða nýrra vinnuhátta. Þannig var talað í gær um mikilvægi rannsókna og vísinda, það væri undirstaða framfara.

Framlög til Nýsköpunarmiðstöðvar eru lækkuð, líka styrkir til nýsköpunarfyrirtækja. Rannsóknastarfsemi háskólans, allra háskóla heldur, er skorin niður um 0,6%. Það er ekki stórsókn þar á ferðinni. Framlög til byggðaþróunarsjóðs og sóknaráætlunar lækka, en þar fer líka fram nýsköpun. Þegar þetta er allt tekið saman er augljóst að þetta eru fullkomlega óásættanleg vinnubrögð við gerð fjárlagafrumvarps í því árferði sem nú er.

Þó má segja að ljóstýra sé í myrkrinu. Aukin framlög eru boðuð til rannsókna og nýsköpunar í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Við skulum halda því til haga. Þarna tel ég að staðfest sé, ekki aðeins með flutningi nýsköpunar og rannsókna til mennta- og menningarmálaráðuneytisins heldur líka með nánast engri nýrri innspýtingu til málaflokksins, að verið er að sætta hann þvert ofan í þörf á enn öflugra vísinda-, rannsókna- og nýsköpunarstarfi en hingað til. Það er augljóst.

Frú forseti. Framlög eða öllu heldur fjárheimildir eru auknar um 5%, eða heilar 200 milljónir, þegar kemur að hinum stóra pósti sem við köllum náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu. Þar í felast framlög til innviðaáætlunar, t.d. allt fé til skógræktar og landgræðslu, til framkvæmdar mats fyrir náttúruverndarsvæði og líka til framkvæmda mats á ástandi og nýtingu lands eins og það heitir. Þetta er fjarri góðu lagi. Framlög til svokallaðra innviða duga hvergi til átaks til að binda kolefni né heldur til að bæta gæði landnýtingar. Þetta er gert þegar verið er að hækka kolefnisskatt sem er ekki eyrnamerktur í nokkurn skapaðan hlut eftir því sem maður getur séð.

Framlög til gestastofa tveggja þjóðgarða, Vatnajökuls og Snæfellsjökuls, eru felld tímabundið niður og hluti framlags til Hekluskóga. Allt í einu eru fjárheimildir upp á 200 milljónir settar fram í skýringartexta, en nýtingu þeirra 400 aukamilljóna sem þarna verða til er erfitt að finna í fylgiritinu. Framlög til skógræktar og landgræðslu hækka mjög lítið og sumir lækka reyndar eins og til Skógræktar ríkisins. Svo maður spyr: Til hvers á að nýta auknar fjárheimildir? Eða er þetta bara pappírsgagn? Hvar er stefnan?

Fjárheimildir til rannsókna og vöktunar náttúru standa nánast í stað. Móta á áætlun um að efla vöktun náttúru og vöktun náttúruvár. Áætlun um rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga fyrir lága upphæð er felld niður, en á móti kemur allhá upphæð fyrir gerð áhættumats vegna vatnsflóða og sjávarflóða eldgosa hverfur. Hver eru rökin fyrir því? Það er heldur ekki staf að finna um frekari vinnu við brottflutningsáætlanir einkum vegna eldgosa og jökulhlaupa annars staðar en á Kötlusvæðinu. Þær áætlanir vantar enn þá á þéttbýlum svæðum. Voru einhvern tímann í löturhægri vinnslu.

Styrkir til uppbyggingar á innviðum rafbíla eru óbreyttir eða lágir þar sem þarf stórátak. Undir liðnum Vistvænir orkugjafar, hvað sem það nú táknar, er eyða. Það er eins og eitthvað hafi gleymst. Framlög til staðbundinna náttúrustofa lækka, en þar fer fram mikilvæg gagnasöfnun vegna loftslagsbreytinga.

Svo má leita með logandi ljósi að beinum framlögum til styrktar orkuskiptum, svo sem tilraunum eða verslun með nýja gerð vetnisbíla sem eru komnir á markað, aukinni íblöndun vistvænna efna í eldsneyti, eða prófunum á metan á skipsvélum í samvinnu við klasann sem kallast Hafið. Auðvitað má verjast slíkri gagnrýni með því að vísa í vinnu við aðgerðaáætlun, en á móti kemur að ótalmargt sem fyrir löngu, löngu hefði getað verið hafið og gengur ekki í berhögg við heildræna áætlun, þar með talið orkuskipti í samgöngum og útgerð, vantar einfaldlega. Augljós verkefni sem létta róðurinn á meðan heildaráætlun er unnin, rædd og samþykkt, eða eiga að hafa nokkurn forgang meðan hitinn er að hækka á mælunum alls staðar um heim á hverju ári. En það er eins og einhver hafi gleymt þeim. Ríkisstjórnin skilur ekki kall tímans. Hún sparar í málaflokkum sem eiga annað skilið í nafni almennings og samfélags og sveltir útgjaldaliði sem varða velferð til langs tíma og öryggi um langa framtíð. Nú er ég að tala um loftslagsmál.

Frú forseti. Að öðru og yfirgripsmeira í enda ræðu minnar. Það er auðvelt að týnast í skoðunum á krónum í þessu 600 blaðsíðna hafi hér og hvar og sökkva sér í praktísk mál sem öll eru vissulega mikilvæg í daglegu lífi og sem speglast í fjárlögum. En það er jafn mikilvægt og raunar oft mikilvægara að horfa á og meta hugmyndafræðina sem er að baki þessu fjárlagafrumvarpi. Að mínu mati er hún í tilviki þessarar ríkisstjórnar óásættanleg og ókræsileg blanda af ákveðnu tillitsleysi við hag almennings, blindri fylgni við aukinn hagvöxt og aukinn hagnað þeirra sem nóg eiga fyrir og loks varðstöðu um þessi frægu 10% þjóðarinnar sem eiga um 60% allra eigna. Þetta er auðvitað kjarni sjálfstæðisstefnunnar sem stýrir ríkisstjórninni hvað sem öðrum ríkisstjórnarflokkum líður.

Hæstv. félagsmála- og jafnréttisráðherra, Þorsteinn Víglundsson, sagði í gær vera hallur undir hægri hagstjórn og vinstri velferð. Ég vil upplýsa að þessi orðaleikur gengur ekki upp. Eða hver myndi skilja ef ég segðist á hinn bóginn stunda vinstri hagstjórn og hægri velferð? Menn sjá að þetta er innantóm hugtakaleikfimi. Það er auðvitað þannig að bæði hagstjórn og velferð eru annaðhvort hægri eða vinstri. Hægri hugmyndafræðin kristallast t.d. í hugtakinu greiðslugeta atvinnuveganna. Það var nefnt í ræðu hæstv. forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, þegar hann hélt ræðu sína um stefnumörkun. Hvað merkir það í raun? Það merkir ákveðið sjálfsvald, sjálfsvald ráðamanna í atvinnurekendahópi landsins sem telja sig geta reiknað út og ákvarðað hagþörf þessa sama hóps. Það sem út af stendur eftir þá útreikninga má svo skammta til launafólks og best ef það deilir innbyrðis um þann hluta. Þetta er ákveðin hugmyndafræði sem vert er að hafa í huga og við köllum hægri.

Nú skulum við snúa þessu við og hugsum okkur ef við reiknum út greiðslugetu launafólks og síðan væri atvinnufyrirtækjum gert að greiða í samræmi við það. Myndum við kalla það vinstri hugmyndafræði? Ég tel það. Þessar átakalínur sem eru í samfélaginu lita fjárlagafrumvarpið og lita umræður okkar í þinginu. Auðvitað er þetta einföldun, en það er alltaf mjög mikilvægt í allri þessari umræðu um peninga og fjármál, velferð og vísindi, rannsóknir, tækni og baráttuna gegn loftslagshlýnun að í odda skerst milli hægri og vinstri út af því að þarna að baki er skýr hugmyndafræði sem er komin löng reynsla á í íslensku þjóðfélagi og við þurfum að losna við, þ.e. þessa hægri stefnu sem er búin að lita þjóðfélagið allt of lengi.