147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Fyrst aðeins nokkrar tölulegar staðreyndir, til að setja hlutina í sögulegt samhengi. Á síðasta ári voru skatttekjur ríkisins 229 milljörðum kr. hærri að raunvirði en aldamótaárið, árið 2000, og tekjuskattur einstaklinga liðlega 58 milljörðum hærri. Virðisaukaskattur skilaði ríkissjóði tæplega 48 milljörðum meira í kassann á síðasta ári, að raunvirði, á verðlagi síðasta árs, en aldamótaárið.

Útgjöldin hafa líka vaxið verulega, eða um 220 milljarða. Þá eru vextir eða sérstök gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga ekki þar með talin.

Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga skili ríkissjóði rúmlega 178 milljörðum kr. Þetta er nær 17 milljarða kr. hækkun frá síðasta ári samkvæmt ríkisreikningi. Virðisaukaskattur skilar 21 milljarði meira í tekjur og í heild verða skattar á vörur og þjónustu um 38,5 milljörðum kr. hærri á komandi ári, gangi áætlanir þess frumvarps sem hér er lagt fram eftir, en var á liðnu ári.

Í heild er reiknað með að skatttekjur og tryggingagjöld verði hvorki meira né minna en 76 milljörðum og 200 milljónum betur hærri á komandi ári en var á liðnu ári. Þetta jafngildir um það bil 900 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Og þegar við þingmenn tökum ákvarðanir um útgjöld en ekki síður þegar við tökum ákvörðun um hversu miklar byrðar við ætlum að leggja á landsmenn ættum við að hafa að minnsta kosti eina staðreynd í huga: Skatttekjur ríkisins á hverja fjögurra manna fjölskyldu verða um 5,9 millj. kr. hærri að raunvirði á komandi ári en þær voru árið 2000. Það er að teknu tilliti til mannfjöldabreytinga. Þetta eru 5,9 millj. á hverja fjögurra manna fjölskyldu, tæplega 500 þús. kr. á mánuði.

Við hljótum að spyrja: Hafa landsmenn fengið betri þjónustu fyrir alla þessa fjármuni? Fyrir þessar tæpu 500 þús. kr. á mánuði? Alveg örugglega, víða. En ekki alls staðar. Og það er alveg ljóst í mínum huga að töluverðum hluta þessara fjármuna er sóað. Þá spyr ég: Ætla menn virkilega að þyngja byrðarnar?

Þegar horft er á þessar tölulegu staðreyndir, þær hafðar í huga, er að minnsta kosti erfitt að

færa rök fyrir því að ríkissjóður glími við tekjuvanda. Að það sé nauðsynlegt að leita leiða til að auka tekjurnar með því að þyngja byrðarnar með auknum álögum. Ég held að það sé þvert á móti. Og það á ekki að koma neinum í þessum sal á óvart að ég segi: Hingað og ekki lengra. Það á ekki að koma ráðherrum þessarar ríkisstjórnar á óvart, ekki samstarfsmönnum mínum í ríkisstjórn á óvart og það á ekki að koma ágætum félögum mínum í stjórnarandstöðunni á óvart heldur. Allt sem ég hef sagt, allt sem ég hef skrifað, allt sem ég hef staðið fyrir undanfarna áratugi getur ekki leitt til annars en að ég segi: Hingað og ekki lengra.

Gríðarleg aukning tekna á síðustu árum er vísbending um að ríkið eigi fremur að slaka á klónni, slaka á skattaklónni. Mikil raunaukning útgjalda, þung vaxtabyrði ásamt samsetningu eigna og skulda, rennir stoðum undir þá fullyrðingu að rekstur ríkisins er óhagkvæmari í dag en hann var fyrir nokkrum árum, tíu, fimmtán árum. Við erum sem sagt ekki að nýta sameiginlega fjármuni okkar með þeim hætti sem gera verður kröfu til. Og við erum heldur ekki að nýta sameiginlegar eignir okkar landsmanna með sem hagkvæmustum hætti og landsmenn eiga kröfu til að gert sé.

Lausnin getur því ekki falist í að auka útgjöld enn frekar eða hækka skatta, leggja þyngri byrðar á launafólk og fyrirtæki. Auðvitað þurfum við að standa með myndarlegum hætti að heilbrigðiskerfinu, byggja það enn frekar upp og tryggja að allir fái bestu mögulegu þjónustu óháð efnahag. Við eigum líka ýmis verkefni óunnin þegar kemur að almannatryggingakerfinu eins og ég hef áður vikið að í þessum ræðustól. Það er hluti eldri borgara, sem lagði grunninn að þeirri velferð sem ég hef fengið að njóta og við hér öll, sem býr við kröpp kjör. Við þurfum að huga sérstaklega að þeim. Ég hef ítrekað sagt að mér svíður að okkur skyldi ekki hafa tekist að gera breytingar á lögum um tryggingakerfi öryrkja; að innleiða hlutabótakerfi, að taka upp starfsskyldumat og styrkja fjárhagslega stöðu öryrkja. Þar hef ég sérstakar áhyggjur af ungum öryrkjum sem eiga lítil og jafnvel engin réttindi í almennu lífeyriskerfi.

Þetta verkefni blasir við. Við þurfum að setja aukna fjármuni í það. En þeir fjármunir eru líklegast til staðar í ríkissjóði, í ríkiskerfinu, því að við erum ekki að nýta fjármunina með skynsamlegum hætti heldur sóa þeim að nokkrum hluta, að minnsta kosti. Við getum hins vegar deilt um hversu stórum hluta. Þetta snýst allt um að nýta fjármuni með skynsamlegum hætti, þetta snýst um það hvernig við forgangsröðum, byggjum upp kerfi, skipuleggjum heilbrigðisþjónustuna o.s.frv.

Ég held nefnilega að við séum sek um það í þessum sal, og fleiri, við erum ekki þau einu, að veita því allt of litla athygli hvernig tekjur ríkisins og sameiginlegar eignir okkar nýtast í hin sameiginlegu verkefni. Afleiðingin er sú að ríkisreksturinn þenst út og verður óhagkvæmari með hverju árinu sem líður. Til að leysa vandann er þægilegra að grípa til ráðstafana til að auka tekjur, hækka skatta og finna nýja tekjustofna.

Það er auðvitað svo að við höfum verk að vinna. Við búum við mikla hagsæld. Efnahagslegar aðstæður eru okkur í flestu hagfelldar, hagvöxtur 6% á þessu ári, 3,3% á því næsta. Atvinnuleysi hverfandi, verðbólga minni en við höfum áður séð, o.s.frv. Hagsældin er ekki án áskorana. Kjarasamningar verða sjálfsagt erfiðir. Að minnsta kosti ekki einfaldir. Og ekki er hægt að reikna með að ferðaþjónustan verði sami aflvaki og hún hefur verið á undanförnum árum. Það eru viðvörunarmerki sem við verðum að hafa í huga. En það eru áskoranir. Þetta eru verkefni. Ef við ætlum að mæta þessum áskorunum og reyna að leysa þessi verkefni með auknum sköttum og þyngri álögum á einstaklinga og fyrirtæki fullyrði ég að við lendum ekki aðeins (Forseti hringir.) í pólitískum erfiðleikum heldur, og það skiptir mestu máli, munum við lenda í efnahagslegum ógöngum.

(Forseti (NicM): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)