147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:04]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vona að ég sé ekki að misskilja hv. þingmann en ég hygg nú að ég hafi áður svarað svipuðum vangaveltum úr þessum ræðustól. Ég segi: Það er hlutverk okkar hér inni að tryggja að allir landsmenn hafi aðgang að öflugri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Það er forsendan. En ég segi líka: Það er hlutverk okkar hér að tryggja að þessum fjármunum sé vel varið, þeim sé ekki sóað. Þegar ég horfi til dæmis á úttekt Ríkisendurskoðunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem hv. þingmaður hlýtur að hafa lesið og kynnt sér kemur berlega í ljós að það er nefnilega stundum hagkvæmt að ríkið geri þjónustusamninga við einkaaðila og nýti þar með takmarkaða fjármuni, því við erum auðvitað alltaf að tala um takmarkaða fjármuni ríkissjóðs, með hagkvæmari hætti en gert hefur verið. Og það sem meira er: Aðgengi höfuðborgarbúa að heilsugæslu stórbatnar, þjónustan stórbatnar, og biðraðirnar styttast. Þannig að já, einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er okkur gríðarlega mikilvægur en hann verður auðvitað að vera þannig að hann skili okkur betri nýtingu fjármuna og bættri þjónustu án þess að við gefum nokkurn tíma eftir í því prinsippi að tryggja öllum aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og í rauninni búsetu líka.