147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ræðumanni ræðuna. Mér fannst áhugavert að heyra tilvísun í jafn vafasama hagfræðikenningu og Laffer-kúrfuna en við látum það kannski liggja á milli hluta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt skilið að hann sem formaður í efnahags- og viðskiptanefnd, sem mun sjá um þessar skattbreytingar, muni leggjast gegn hækkun á sköttum sem lögð er til í meðfylgjandi frumvörpum, sem sagt í 2., 3., og 4. máli, þá sérstaklega hækkun áfengisgjalds, tóbaks. Reyndar er ekkert tóbak inni í þessu, en hækkun á bensíni og beinum neyslusköttum sem koma hlutfallslega verst niður á þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Ég spyr að þessu hreinlega vegna þess að ég óttast að þetta fari beint út í verðlagið og verði slæmt fyrir komandi kjaraviðræður.

Ég vil einnig spyrja: Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir 44 milljörðum kr. í afgang, sem er 1,6% af vergri landsframleiðslu. Þetta á að fara í að borga niður skuldir. Væri eðlilegra að hans mati að hætta að eyða svona miklu púðri í niðurgreiðslu skulda eins og staðan er? Nú erum við með skuldastöðu ríkissjóðs um 39,2% af vergri landsframleiðslu, ef mig misminnir ekki. Væri eðlilegra að nýta þennan afgang til skattalækkana í staðinn? Eða á einhvern hátt reyna að láta þetta fara til baka til fólksins í landinu? Það hefur til dæmis komið í ljós að persónuafsláttur hefur ekki fylgt verðlags- eða launaþróun undanfarna áratugi.