147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þurfti að skjótast frá, eins og ég var búinn að segja hv. þingmanni frá, en náði þó að heyra stóran hluta af ræðunni.

Það er eitt mál sem ég vil koma að í sambandi við áfengisgjald sem hv. þingmaður taldi að nú væri komið af. Það minnir mig á að í eitt skipti af mörgum sem áfengisgjaldið hækkaði skrifaði frændi minn, Haraldur heitinn Blöndal, grein í Morgunblaðið og sagði að menn yrðu að kunna sér í hóf í hækkunum á áfengisgjaldi og muna það sem Danirnir kölluðu „den fattige mans snaps“, sem væri nauðsynlegur.

Þarna er um breytingu að ræða. Áfengisgjald hefur verið ákveðið eftir styrkleika tegunda og verið hæst fyrir sterkt vín, næsthæst fyrir bjór og þriðja hæst fyrir léttvín, þó svo að léttvín séu sterkari en bjór. Við vildum gjarnan leiðrétta það í fjármálaráðuneytinu og könnuðum ýmsar útfærslur. Sú útfærsla varð ofan á um tíma að jafna þetta tvennt, en ég mun, þegar ég mæli fyrir frumvarpinu, beina þeim tilmælum til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að á móti verði lækkað gjaldið á bjór þannig að þarna verði ekki um eiginlega hækkun að ræða heldur aðeins tilfærslu. Ég vona að það veki gleði hjá hv. þingmanni.