147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:35]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta vekur að sjálfsögðu gleði hjá þeirri sem hér stendur. Svo ég vitni hér í grein sem Félag atvinnurekenda var að senda á hv. þingmenn þá er áfengisgjald á Íslandi töluvert hærra en t.d. í Noregi. Ég man sjálf eftir því þegar ég var fátækur námsmaður að byrja að drekka 18 ára gömul, eins og venjulegir íslenskir krakkar gera, að á einni nóttu fór vodkapelinn úr um tvö þúsund kalli upp í næstum því fjögur þúsund kall. Það var gagngert út af því að einhverja tekjuaukningu þurfti í ríkissjóð út af hruninu. Þess vegna er kominn tími til þess að segja stopp. Að sjálfsögðu gleðst ég yfir því að hæstv. ráðherra ætli að leiðrétta gjaldið á bjórinn sem því nemur, en þrátt fyrir það er bara komið nóg. Þetta eru neysluskattar. Þetta mun fara út í verðlagið. Ég er alveg sannfærð um það þótt ég hafi ekki hagfræðilegar kenningar um það, að þetta hafi sérstaklega slæm áhrif á verðlag á veitingastöðum þar sem dýrari bjór þýðir að viðkomandi rekstur þarf að verðleggja hamborgarann í samræmi við hann þannig að bjórinn virðist ekki vera allt of dýr og hamborgarinn virðist ekki vera allt of ódýr miðað við bjórinn. Ég tel þessar hækkanir ekki vera góðar almennt þótt ég fagni að sjálfsögðu orðum hæstv. ráðherra. Ég get sömuleiðis ábyggilega stutt þessa breytingartillögu.