147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:44]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að segja alveg eins og er — og ég vona að við fáum svör við því þegar við förum að ræða þetta í fjárlaganefnd — að það er ekki gott, eins og hér kemur fram og þingmaðurinn nefndi í upphafi um íþrótta- og æskulýðsmálin, að við sjáum ekki sundurliðun heldur bara eina tölu. Það er aldrei gott. Ég átta mig ekki á því af hverju þetta er gert með þessum hætti. Það getur vel verið að þetta sé að finna annars staðar, en það er hins vegar ekki heppilegt. Það þyrfti þá að vera einhvers konar tilvísun, að minnsta kosti meðan verið er að fleyta þessu svona fram.

Það kemur líka fram á einhverjum stöðum í fjárlagafrumvarpinu, eins og t.d. um framlög til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu, að það hækkar eitthvað smávegis frá gildandi fjárlögum, hins vegar er fjárveitingin lægri í samgönguáætluninni. Þarna er líka að finna mismun á framsetningu á tölum á nokkrum stöðum. Til dæmis er talað um 1,6 milljarða í lækkun vaxtabóta á tveimur stöðum. Svo eru rúmlega 2.000 milljónir aftur á öðrum stað. Það þarf aðeins að slípa þetta betur til þannig að vísað sé í það ef um eitthvað svona er að ræða.

Það er gott að ræða framsetningu og form. Ég tek undir að rafræna skjalið er ágætt til leitar þannig að það er líka tilvalið að nýta sér það. En ég tek undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur að það er alltaf gott að geta svo skrifað í bókina. Það er líka gott að hafa svona efnisyfirlit.

Mig langaði líka til að ræða það við þingmanninn, af því hún nefndi að við þyrftum að gæta hagsmuna okkar í Brussel varðandi samninga og allt það, að ég held að við þurfum að fylgjast svolítið vel með og fara vel ofan í þær breytingar sem hæstv. utanríkisráðherra er að gera á utanríkisþjónustunni og vita hvort það er ekki örugglega eitthvað sem hugnast okkur. Þar er ég meðal annars að hugsa um þróunarsamvinnuna (Forseti hringir.) sem mér finnst vera svolítið teygjanlegt hugtak eins og hér var sagt á síðasta kjörtímabili.