147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[16:46]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, við þurfum að gæta sérstaklega vel að þeim breytingum sem eru að verða á utanríkisþjónustunni okkar. Að sjálfsögðu er þróunarsamvinnan stór hluti af útgjöldum sem heyrir undir málaflokk utanríkisráðherra.

Það sem hefur komið á óvart — þar sem ég er nú nefndarmaður í hv. utanríkismálanefnd — er að allar tillögur utanríkisráðherra byggjast innan núverandi fjárlagaramma. Mér þykir það svolítið einkennilegt út af því að ég held að breytingar hafi alltaf kostnað í för með sér þótt það sé einungis tímabundinn kostnaður, jafnvel bara einskiptiskostnaður. Þótt hagræðing sé í gangi, þá hefur það kostnað í för með sér. Fyrir utan það eru ákveðin tilmæli í þessari skýrslu, ákveðnar hugmyndir, sem ef við ætluðum að gera það vel — eins og t.d. auka viðveru okkar í Brussel til þess að gæta íslenskra hagsmuna — mun kosta peninga. Þetta mun kosta fjármuni.

Til samanburðar erum við með þrefalt eða fjórfalt færri starfsmenn utanríkisþjónustunnar í Brussel, ef miðað er við Noreg, til að fylgja EES-reglugerðum eftir, til þess að gæta hagsmuna Íslands. Eitthvert samstarf er þarna í gangi milli Noregs og Íslands svo að við séum ekki endalaust að tvívinna hlutina; hagsmunir okkar eru mjög tengdir. En punkturinn er nákvæmlega sá að við þurfum að sníða stakkinn að vexti heimsins sem við búum í, ekki eftir stakki Íslands. Við þurfum einfaldlega fleira fólk til að fylgja ESB eftir. Það er ekki nóg að vera með 15 manns. Það er miklu stærra verkefni að fylgjast með því sem er að gerast innan Evrópusambandsins. Þetta er okkar helsta hagsmunasvæði. Þetta er skammarlegt í raun hvernig við fylgjum þessum hagsmunum eftir. Við erum (Forseti hringir.) ítrekað að fá í hendurnar reglugerðir sem ganga ekki upp miðað við íslenskar aðstæður.