147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessa spurningu, enda er þetta alveg rétt. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með tæki í höndunum til að geta lagt mat á nákvæmlega hvaða aðgerðir í breytingum á skattstefnu eru líklegastar til að skila bestri niðurstöðu. Ég hef t.d. ekki fjármálaráðuneytið á bak við mig í því. Ég hef ekki aðgang að greiningartólum. Það væri æskilegt ef þingmenn hefðu almennt betri aðgang að slíkum greiningartólum.

En alla vega út frá fræðunum er hægt að segja að persónuafsláttur er ein þeirra skattaaðgerða sem er hvað líklegust til að skila auknum jöfnuði, þ.e. hún skilar til dæmis meiru en tekjuskattslækkun. En síðan er fullt af öðrum gjöldum. Hér áðan átti ég orðastað við hv. þm. Óla Björn Kárason m.a. um áfengisgjald og gjöld á eldsneyti. Þar koma pólitísk sjónarmið inn í en engu að síður er alveg tilfellið að þau leggjast þyngst á þá sem eru með lægstu tekjurnar. Auðvitað ættum við að skoða þetta frá öllum hliðum og sömuleiðis að reyna að finna einhvers konar jafnvægi í því að vera með hæfilega og hóflega skattlagningu, samhliða sterku velferðarkerfi. Þetta eru í raun skilaboðin sem komu frá hæstv. fjármálaráðherra í gær og ég tek undir þau skilaboð. En ég er ekki sannfærður um að þetta fjárlagafrumvarp muni ná því markmiði eins og staðan er, að hluta til vegna þess að grindverkið eða regluverkið utan um hagkerfið okkar snýr einhvern veginn allt saman aðeins vitlaust. Við getum lagað það. Það er ekki svo flókið.