147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum einmitt að ræða þessa stóru mynd, þessa víðu, stóru mynd um hvernig við viljum skipa samfélaginu. Það er rétt sem hv. þingmaður segir um að hann hafi ekki tækin og það sem þarf til að segja til um hvaða aðgerð sé líklegust til að skila mestum árangri, en þá þurfum við líka að horfa til þess að fólkið í samfélaginu, meira að segja fólkið í samfélaginu sem býr við óskaplega kröpp kjör, býr samt við óskaplega margvíslegar aðstæður og þarfir þess eru mjög margvíslegar. Við hljótum alltaf að þurfa að hafa það í huga. Vinnan hér inni á ekki bara að snúast um að stemma af einhverjar tölur á blaði, heldur á hún að snúast um hvernig við getum skapað samfélag þar sem sem allra, allra flestum líður sem best. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera það með því að beita skattkerfinu með sanngjörnum hætti. Ég er ekki feimin við að segja að ég tel að þeir sem eru betur settir eigi að leggja meira til en hinir sem búa við krappari kjör.

Mig langar þess vegna að teygja þetta samt aftur til baka að skuldunum og hvað við ættum að gera við peningana. Hvort við þurfum ekki einmitt að líta til þess að fjárfesta í fólkinu okkar, hvort sem við fjárfestum í ungu fólki með menntun eða í fólki með vellíðan þess í huga og setja þar með til að mynda aukna fjármuni í að allir geti haft aðgengi að sálfræðiþjónustu á viðráðanlegu verði, (Forseti hringir.) óháð því í raun hvort þeir eru ríkir eða fátækir. Hvort það sé ekki byrjunarpunktur sem við verðum alltaf að hafa í huga.