147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:09]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek undir þetta. Það er eðli málsins að allt þetta sem við erum að gera hér snýst um stóru spurningarnar, snýst um að reyna að leysa það verkefni að búa til gott samfélag. Ég held að allir geti tekið undir það. Það er oft ágreiningsatriði nákvæmlega hvað mun gera samfélag gott. En ég held að miðað við þær fréttir sem við heyrum daglega af þjáningu fólks af margvíslegum toga sé augljóst að eitt innihaldsefnið sem við höfum ekki sett í þennan bakstur eins og er, alla vega ekki í nægjanlegu magni, er að velferðarkerfið endurspegli þá þörf sem er til staðar og að samúðin sem samfélagið hefur gagnvart fólki sem á um sárt að binda endurspeglist í því hvernig við rekum ríkið okkar. Það er bara frekar einfalt.

En það eru auðvitað fleiri þættir sem koma til. Eitt af því sem ég hef ekki orðið nægilega var við í þessari umræðu hingað til er nauðsyn þess að fara að byggja upp fleiri tekjustofna með því að gera í raun atvinnuvegina fjölbreyttari, styðja við nýsköpun og þess háttar. Vegna þess að því öflugra hagkerfi sem við höfum á framendanum, því betra velferðarkerfi getum við verið með á bakendanum. Það er nokkuð augljóst.

Ég óttast að ef við höfum alla áhersluna á að borga niður skuldir þangað til við erum komin niður í stig sem lönd fara eingöngu á þegar þau fá ekki fyrirgreiðslu á annað borð, munum við verða komin á stað þar sem við fáum ekki að vera með gott samfélag, alveg sama hvað við reynum.