147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þyrfti nú að hafa nokkurn tíma ef ég ætti að gefa sæmilega tæmandi yfirlit yfir það sem ég þekki til aðdragandans að þessu leyti. En í örstuttu máli sagt, ef maður reynir að stikla á því stærsta sem skipt hefur mestu máli fyrir vel heppnaða endurreisn Íslands: Í fyrsta lagi hófumst við strax handa á miðju ári 2009. Það var ekki beðið eins og sumir voru að tala um, að það ætti bara að láta árið 2009 líða og jafnvel milda höggið með því að reka ríkissjóð með bullandi halla í þess vegna tvö, þrjú ár, og reyna svo að vinda ofan af hlutunum. Ég sá ekkert vit í því. Eins og málin litu út 2009 hefði ríkissjóður getað orðið gjaldþrota ef menn hefðu ætlað þá leið. Þannig að við hófumst handa strax 2009 með viðamiklum aðgerðum á miðju ári sem síðan var fylgt eftir ár eftir ár. Það er stór þáttur í því að staðan er ekki verri eða jafn góð og hún er að það tókst svona hratt að koma ríkissjóði út úr hallarekstri. Auðvitað var hann bara að safna skuldum öll árin og það voru stórar fjárhæðir framan af. Það á stóran þátt í þessu.

Endurreisn bankanna, sem var stórt og mikið verkefni þarna, endaði með því að koma út í bullandi plús fyrir ríkið. Það var geysilega vel heppnuð aðgerð í öllu falli frá sjónarhóli ríkissjóðs, skilaði hagnaði. Svo lagðist með okkur makríll og ferðamenn og margt fleira. Viðskiptakjör voru hagstæð o.s.frv.

Varðandi gjaldeyrisjöfnuðinn, aflandskrónurnar og stöðugleikaframlög þá held ég að í það heila tekið hafi frá byrjun verið tekið mjög skynsamlega á því. Það var alltaf og lá fyrir í fyrstu áætlun um afnám gjaldeyrishafta að aflandskrónurnar yrði að verðrýra, við gætum ekki skipt þeim á fullu gengi. Þegar ljóst var hversu mikil gjaldeyrisskekkja var í uppgjöri slitabúanna var niðurstaðan sú sama. Þessi verðmæti fara aldrei út úr landinu á fullu verði þannig það var ekkert nýtt í því þegar menn komu á endanum með lög um stöðugleikaskatt eða stöðugleikaframlög. Það var búið að liggja lengi fyrir að þessar eignir yrði að verðrýra og það væri réttlætanlegt. (Forseti hringir.)

Mikilvægasta aðgerðin í því var sú þegar eignir (Forseti hringir.) þrotabúanna voru færðar inn fyrir gjaldeyrishöftin í mars 2012. Það var stærsta einstaka og mikilvægasta aðgerðin í því (Forseti hringir.) sem bjó til þá stöðu sem Ísland gat síðan nýtt sér til að komast svona vel frá málinu.