147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er skemmtileg umræða og fróðleg. Ég hef aldrei efast um að sem fjármálaráðherra þá hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gert fjölmörg mistök, en það var eðli málsins samkvæmt vegna þess að hann þorði að taka ákvarðanir, það var það sem þurfti að gera. Þannig komumst við áfram. Ég hef aldrei hikað við að segja það að hann getur horft stoltur um öxl þegar hann horfir yfir heildartímabilið vegna þess að eina leiðin til þess að gera engin mistök er að gera ekki neitt. Það hefði verið miklu verra og það versta sem hefði getað komið fyrir Ísland.

Það er annað sem ég er sammála hv. þingmanni í máli hans en það er aðstaða opinberra starfsmanna sem lögðu mikið á sig eftir hrunið. Vissulega hafa kjör þeirra verið bætt mikið síðan, en ýmislegt í aðstöðu þeirra þarf að bæta. Þetta passar alveg og rímar vel við þann málflutning sem ég hef haft uppi að undanförnu í sambandi við kjaraviðræður við opinbera starfsmenn. Ég held að þar þurfum við að einbeita okkur vel að hinu kjaralega umhverfi, stóru myndinni, þ.e. ekki bara launaliðnum heldur líka hvernig vinnuaðstaðan er, hvernig vinnutíminn er o.s.frv.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um ákveðnar skattbreytingar sem við leggjum til hér. Við erum annars vegar að tala um græna skatta, hér eru kolefnisgjöld og dísilgjöld, hins vegar höfum við verið að tala um breytingar á virðisaukaskatti. Ég veit að almennt talað er hv. þingmaður kannski skattaglaðari en ég, en hverjar eru skoðanir hans á þessum ákveðnu skattbreytingum sem við erum að fara í núna?