147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja að mér finnst gott að heyra hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fjalla með þessum hætti um kjör og starfsaðstæður opinberra starfsmanna. Ég held að sé mikilvægt að við höfum mann í hans stóli sem hefur á því skilning að þar er verk að vinna og það er sannarlega rétt að það snýr ekki bara að kjörunum heldur líka að starfsaðstæðum, umhverfinu, að vinnuálaginu, að mörgum þáttum sem þarf virkilega að sinna þannig að þetta verði aðlaðandi starfsumhverfi, þannig að ríkið verði samkeppnishæft, þannig að ungu fólki finnist spennandi að koma inn með sína menntun og vinna hjá ríkinu o.s.frv.

Varðandi áformaðar skattbreytingar og sérstaklega það sem snýr að umferðinni þá tel ég sjálfsagt mál að færa upp kolefnisgjaldið. Við komum því á á sínum tíma og á köflum var það ekki einu sinni látið fylgja alveg verðlagi þannig að það finnst mér vera eðlilegt.

Varðandi hækkunina á dísilskattinum til að jafna það við bensínið þá er auðvitað sá skavanki á því máli að það kemur tilfinnanlega niður á landsbyggðinni, það er ekki hægt að neita því. Þar eru menn miklu háðari löngum akstri. Menn þurfa stærri og öflugri bíla yfir vetrartímann. Svo eru það flutningarnir og flutningskostnaðurinn þar sem olían vegur inn í sérstaklega á landsbyggðinni. Ég myndi vilja skoða hvort einhver leið væri til þess að ná því fram með mótvægisaðgerðum að þetta verði ekki of íþyngjandi fyrir flutningskostnaðinn og aksturinn á landsbyggðinni.

Aðalgagnrýni mín er sú að þessar breytingar og meiri til átti auðvitað að gera fyrir tveimur, þremur árum þegar bensínverð var að hríðfalla á alþjóðamörkuðum og gengi krónunnar að styrkjast. Við sáum fleiri tuga króna lækkun á lítrann á útseldu verði. Að menn skyldu ekki þá færa t.d. mörkuðu tekjustofnana til vegagerðar upp til verðlags, það er mikil synd. Betra seint en aldrei, en kannski þarf að taka það núna í einhverjum skrefum.

Varðandi virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna, ef hæstv. ráðherra er að spyrja mig um það, þá er ég ekki viss um að það sé skynsamlegt að fara þá leið. Það sem ég teldi að í bili væri skynsamlegast að gera væri að (Forseti hringir.) þrepaskipta gistináttagjaldinu almennilega, (Forseti hringir.) leyfa sveitarfélögunum að fá hlutdeild í þeim tekjum og taka upp komugjöld á háannatímanum, bíða um sinn a.m.k. með breytingar á virðisaukaskattinum.