147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég má aðeins bæta við í sambandi við virðisaukaskattinn og ferðaþjónustuna þá tel ég líka að mörgu leyti sé það fyrirkomulag gott sem er akkúrat komið á núna eftir að öll sala í ferðaþjónustu var sameinuð í einu þrepi, það var mjög góð skattatæknileg breyting. Ég hygg að við getum verið sammála um það. Það er viss eftirsjá að því að það hverfi aftur með því að hluti starfseminnar færist upp á efra þrep og áfram sitji sala á mat og öðru slíku niðri í öðru þrepi. Það er auðvitað mjög gott að allir reikningar sem útbúnir eru í ferðaþjónustu núna eru með sama virðisaukaskatt. Skiptir ekki máli hvort það er gisting, matsala, afþreying, áfengissala eða hvað það er. Það er gott fyrirkomulag. Það yrði eftirsjá að því.

Varðandi bankasölur þá kom þessi heimild um Landsbankann inn í lög í raun og veru áður en ríkið eignaðist hann að fullu. En við gerðum okkur vonir um að það mundi ganga eftir að ríkið fengi til sín að fullu eignarhaldið á Landsbankanum og það varð. Þegar B-bréfið var gert upp þá fékk ríkið án þess að borga krónu fyrir 18% í Landsbankanum. Niðurstaðan var sú að ef til þessa kæmi skyldum við hafa heimild í lögum til að selja þann hluta eða kannski rúmlega það. En í reynd var þetta heimildarákvæði sem sú ríkisstjórn var aldrei búin að ákveða hvort hún myndi nota. Þá átti ríkið ekki aðra banka þannig að staðan var þessi. Nú er hún gjörbreytt. Nú eigum við Íslandsbanka að fullu og enn þá eitthvað í Arion. Ég segi alveg hiklaust að það á að byrja þar. Ef menn ætla að losa um eignarhluti ríkisins þá á ekki að byrja á Landsbankanum. Mér finnst koma mjög vel til greina að við drögum upp til alllangrar framtíðar a.m.k. þá sviðsmynd að ríkið ætli sér bara að eiga Landsbankann að fullu, jafnvel leggja á hann sérstakar skyldur þar með, t.d. til að sinna almannabankaþjónustu út um landið o.s.frv.

Hvernig eigum við svo að losa um eignarhluti t.d. í Íslandsbanka? Ég er hrifinn af þeirri leið sem Norðmenn fóru á sínum tíma þegar þeir sátu uppi með umtalsvert eignarhald í fjármálafyrirtækjum. Þeir lögðu áætlun til langs tíma og tröppuðu eignarhald ríkisins (Forseti hringir.) niður í rólegum skrefum og eiga t.d. enn í Den Norske Bank. Við getum lært talsvert af því. Það gekk vel. Það var nokkuð góð samstaða (Forseti hringir.) í Noregi og norska Stórþingið lagði í raun línurnar þar með þingsályktun.