147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta mál er mjög einfalt. Það þýðir að við erum að bera upp fyrir þingið hvort það samþykkir að setja á dagskrá þingfundar frumvarp Pírata sem er í rauninni þess efnis að í framtíðinni verða stjórnarskrárbreytingar bornar undir þjóðina. Það er það sem við erum að biðja um.

Ef við fáum málið á dagskrá í dag eða fyrir þinglok væri hægt að greiða atkvæði um það, klára það, og þá getur næsta þing eftir kosningar samþykkt það og við getum strax farið að breyta stjórnarskránni, eins og að taka út úr stjórnarskránni ákvæðið um uppreist æru. Það er ekki hægt að klára uppreist æru og þurrka út úr lögum nema það sé gert í stjórnarskrá.

Við getum farið að setja inn alvörugegnsæisákvæði í stjórnarskrá. Við getum gert þetta hægt og rólega og í sátt í stað þess að þurfa að bíða aftur í fjögur ár.