147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Á rúmlega einu ári hafa tvær ríkisstjórnir fallið vegna þess að almenningi líkaði ei vinnubrögð stjórnvalda. Stjórnvöld njóta allt of lítils trausts og aðeins fimmtungur kjósenda treystir Alþingi. Það er nauðsynlegt að Alþingi komi á betri samskiptum við þjóðina og mikilvægt og skynsamlegt skref í þá átt væri að hleypa almenningi aftur að vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Yfirgnæfandi stuðningur var í þjóðaratkvæðagreiðslu og í skoðanakönnunum um tillögur stjórnlagaráðs, sem ættu að mynda grunn að nýrri stjórnarskrá og er brýnt að koma á dagskrá. Við stjórnmálamenn megum ekki halda málinu í gíslingu. Við megum ekki óttast þjóðina. Félagslegur strúktúr, almennt þekkingarstig og ný tækni er nú með allt öðrum hætti en þegar við fengum gömlu stjórnarskrána og nýjar aðstæður kalla beinlínis á að við tökum upp ný vinnubrögð. Ef við þróum ekki lýðræði okkar í takt við tímann mun þátttaka almennings í kosningum halda áfram að minnka og enn mun aukast bil á milli þings og þjóðar.

Ég neita að trúa því að menn vilji nota börn sem skiptimynt (Forseti hringir.) í deilum um þingstörf. Þess vegna styð ég þessa dagskrártillögu. Það má ekki gerast að við hendum þessu máli inn í framtíðina.