147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Framtíðin er á dagskrá þingkosninga 28. október. Þar gefst þjóðinni tækifæri til að kjósa fólk sem vill hefjast handa að nýju við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. En mikilvægasta viðfangsefnið sem við horfumst í augu við nú þegar skyndilega var boðað til kosninga er staða barna á flótta.

Breytingin sem við erum að gera nú á útlendingalögum dugar til að ná utan um stöðu þessara barna. Það voru börn sem voru að bíða eftir mannúð, sem voru að bíða eftir réttlæti. Samkomulag um að klára það er samkomulag sem er einhvers virði. Við í þingflokki VG stöndum við það samkomulag.

Það er sannfæring mín og það er samviska mín sem segir mér að halda ekki í óvissuferð þar sem staða barna á flótta er undir. Þetta var okkar mat. Þess vegna stendur þingflokkur VG með tillögu forseta um dagskrá þessa þingfundar.