147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er gott að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn ræður ekki för í þinginu heldur ráðum við för með atkvæðum okkar hérna. Við leggjum til dagskrárbreytingu, ekki að neitt annað flókið sé í gangi hérna, og mig langar eftir ræður þingmanna áðan að spyrja: Hver er að tefla framtíð barna í tvísýnu, hver ræður því að framtíð barna sé í einhverri óvissu? Við lögðum til dagskrárbreytingu þar sem þessi liður hjá okkur yrði síðastur á dagskrá. Þá væri búið að klára allt hitt. Mér þætti vænt um að hæstv. umhverfisráðherra svaraði spurningunni um framtíð hvaða barna væri teflt í tvísýnu varðandi það.

Hérna er verið að tala um að heildarendurskoðun verði frestað um fjögur ár, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir. Er í alvörunni ekki hægt að gera hvort tveggja? Hvað er svona flókið við það? Í alvöru. Við getum bæði bjargað börnunum og breytt stjórnarskránni. Þetta er ekkert flókið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)