147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[13:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég velti fyrir mér hvort margir hv. þingmenn hafi misst af því að fyrir örfáum dögum sprakk ríkisstjórn, þing var rofið og boðað til kosninga. Við erum í þeirri stöðu að rétt rúmar fjórar vikur eru til alþingiskosninga. Mér finnst í raun algjörlega ótrúlegt að mönnum skuli detta í hug að taka stjórnarskrármál inn á síðasta degi þingsins, svona vippa sér í það eins og það sé ekkert mál (Gripið fram í.) við þessar aðstæður. Mér finnst það fráleitt. (Gripið fram í.) Mér finnst alveg fráleitt að mönnum skuli detta í hug að það sé til þess fallið að ljúka þingstörfum að kippa stjórnarskrármálinu hingað inn örfáum vikum fyrir kosningar. Mér finnst það fráleitt. Aðdragandinn 2013 var allur annar þannig að það mál er ekki sambærilegt. Ég var reyndar ekki hrifinn af því máli, en það er önnur saga. Þetta er þó sýnu verra. Það er augljóst að hér er mikil þörf á að ræða stjórnarskrármál en, (Forseti hringir.) því miður, það er bara búið að rjúfa þing og boða til kosninga.