147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[14:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er mikið talað um börn, kannski það dýrmætasta sem við öll eigum.

Í upphafi þings greip Samfylkingin ásamt tveimur öðrum flokkum í neyðarhemil og lagði fram frumvarp til þess að stoppa það að tvær stúlkur og fjölskyldur þeirra færu úr landi. Það var neyðarbrauð. Auðvitað á að leysa hlutina með almennum hætti, enda gerðist það að málið fór í farveg sem kannski mun koma fleiri börnum til bjargar. Alþingi þarf hins vegar í framhaldinu að setja almennar og mannúðlegri leikreglur.

Við hefðum aldrei samið um neitt og við hefðum aldrei gert neitt sem hefði stefnt þessum börnum í voða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég hef enga trú á því að hver og einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði nokkurn tímann hindrað það að slíkt mál hefði komist í gegn. Það ætla ég þeim ekki. Þess vegna er ekkert sem útilokar það að við (Forseti hringir.) samþykkjum það mál og tökum jákvætt í þessa dagskrárbreytingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)