147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

dagskrártillaga.

[14:02]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Samkomulagið sem gert var í gær stendur. Píratar og Samfylkingin eru ekki aðilar að því en við munum ekki rugga bátnum. Við munum að sjálfsögðu hleypa þeim frumvörpum í gegn sem þar var kveðið á um. Dagskránni er því ekki ógnað að öðru leyti en því að þarna á að bæta inn breytingartillögu um stjórnarskrána.

Með þessu erum við ekki að stefna flóttafólki í voða. Við þurfum ekki að vera með einhverjar tæknilegar hártoganir. Við skulum vippa okkur í þetta verk og vera snögg. Við Píratar erum opin fyrir breytingum. Förum í þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)