147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[14:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Inntak þessa frumvarps er viss skurðaðgerð. Hún fjarlægir eitt æxli af mörgum sem uppgötvuðust eftir linnulausa baráttu brotaþola og aðstandenda þeirra sem höfðu hátt þar til kerfið brást loks við. Í þessum anda og í raun vegna þess að við tökum aðeins á einum mjög afmörkuðum þætti þessa risavaxna máls vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að heildarendurskoðun geti farið fram þegar breyta þarf stjórnarskrá til þess að sú vinna geti klárast, sérstaklega þegar í ljós hefur komið eftir þessa miklu umræðu að hugtakið „uppreist æra“ og hugtakið „óflekkað mannorð“ eru ekki lengur boðleg réttarvitund almennings? Til þess að vera kjörgengur til Alþingis þarf maður að vera með óflekkað mannorð. Ef við fjarlægjum það án þess að setja neitt annað í staðinn og án þess að fara í breytingar á stjórnarskrá verður fullkomin réttaróvissa um hverjir eru kjörgengir til Alþingis í næstu alþingiskosningum.

Að lokum: Fyrir þinginu lá vandað frumvarp um breytingu á lögum um lögmenn sem átti að sjá til þess að einhvers konar efnislegt mat færi fram á því að þeir sem sæktust eftir lögmannsréttindum væru til þess bærir, að þeim væri treystandi fyrir því mikilvæga hlutverki sem lögmennskan felur í sér. Til að taka af allan vafa fyrir fram um að verið sé að sigta út einhverja eina starfsstétt eru náttúrlega bara tvær starfsstéttir sem tiltaka sérstaklega uppreista æru og óflekkað mannorð í þessu samhengi, það eru lögmenn og endurskoðendur. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að sjá eins og ég að það er talsverður munur á hlutverki endurskoðanda og hlutverki lögmanns í samfélaginu varðandi það vald sem þeim stéttum er gefið yfir lífi þeirra sem oft eiga sér ekki varnar von.

Því eru spurningar mínar tvær: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hægt verði að breyta og fara í þessa heildarendurskoðun án breytinga á stjórnarskrá? Og hvers vegna stóð hann á móti breytingu laga um lögmenn?